136. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2008.

ART-verkefnið.

[10:59]
Horfa

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt, einhver þarf að hafa forustu í málinu. Ég vil vekja athygli á öðru máli sem hefur verið leitt til lykta með farsælum hætti að mínu mati. Það var mál sem var allt að því til vansa um tíma í kerfinu. Það þvældist á síðustu árum milli ráðuneyta; heilbrigðisráðuneytis, félagsmálaráðuneytis, menntamálaráðuneytis og sveitarfélögin áttu þar líka hlut að máli. Hér var um að ræða málefni blindra og sjónskertra. Allir vildu vel, það var ekki spurning, og allir settu fjármagn í þetta. Síðan skipaði ég nefnd sem í voru m.a. fulltrúar félagsmálaráðuneytisins, sveitarfélaganna, Reykjavíkurborgar og heilbrigðisráðuneytisins, þar sem við komum okkur saman um í samvinnu við Blindrafélagið og fleiri, að setja málið undir eina stofnun og láta eitt ráðuneyti bera ábyrgð á þeim málaflokki. Ég tel það vera heppilegra þegar eitt ráðuneyti, einn aðili ber ábyrgð en fær síðan aðra til liðs við sig eins og þar er. Hæstv. félagsmálaráðherra mun brátt flytja tillögu um sameiginlega miðstöð eða stofnun til að þjónusta blinda og sjónskerta. (Forseti hringir.) Ég tel þessa leið vera til fyrirmyndar og ég held að þetta sé eitthvað sem við eigum að skoða nákvæmlega í þessu verkefni.