136. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2008.

fjárhagur og skyldur sveitarfélaga.

[11:09]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn um sveitarfélögin í landinu. Ég vísa til fréttatilkynningar vegna blaðamannafundar sem ríkisstjórnin hélt áðan. Þar er fjallað um það að heimila hækkun útsvars sveitarfélaganna sem getur leitt til hækkunar tekna þeirra og kemur til móts við aukaframlag í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.

Ríkisstjórnin tekur með öðrum orðum þá ákvörðun að koma til móts við sveitarfélögin og heimila þeim hækkun. Viðræður eru í gangi, m.a. hafa verið fundir með Sambandi ísl. sveitarfélaga, við höfum átt samráðsfundi. Bíða verður í nokkra daga með nánari útfærslu á þessu en þarna kemur fram sú tímamótaákvörðun að heimila sveitarfélögunum að hækka útsvar sitt og þar með fá þau meiri tekjur.