136. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2008.

fjárhagur og skyldur sveitarfélaga.

[11:11]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðuleg forseti. Ég hef svo sem ekki miklu að bæta við það sem hv. þingmaður segir. Það hefur verið baráttumál sveitarfélaganna, í því aðgerðaplani sem þau hafa kynnt fyrir okkur, og við höfum verið að ræða saman um, að tryggja aukaframlag til jöfnunarsjóðs til að koma til móts við litlu sveitarfélögin. Þau eiga verulega bágt og þurfa á aukatekjum úr jöfnunarsjóðnum að halda.

Fram hefur komið, virðulegi forseti, að hjá einu sveitarfélaginu er framlag úr jöfnunarsjóði um 60% af heildartekjunum. Hér á höfuðborgarsvæðinu er ljóst að til útsvarshækkunar þarf að koma, til þess að verja grunnþjónustuna. Eins og við höfum talað um er það markmiðið í stefnu Sambands ísl. sveitarfélaga og sveitarstjórnarráðuneytisins, samanber yfirlýsingu okkar. Útfærslan á þessu er ekki klár, við eigum eftir að vinna hana. Farin verður blönduð leið þar sem við reynum að taka á þeim vanda sem er og koma til móts við sveitarfélögin að hætti (Forseti hringir.) jafnaðarmennsku og jafnaðarmanna.