136. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2008.

peningamarkaðssjóðir.

[11:17]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Peningamarkaðssjóðir hafa verið mikið í umræðunni í því hruni sem orðið hefur í rekstri bankanna á undanförnum vikum. Tugþúsundir einstaklinga og fjölskyldna hafa misst gríðarlega miklar fjárhæðir og mörg heimili eru beinlínis í uppnámi vegna þessarar þróunar. Hæstv. viðskiptaráðherra lét sig málið varða strax í upphafi hrunsins og fulltrúar hans funduðu m.a. með fulltrúum viðskiptabankanna vegna þess. Í þessu máli er mikilvægt að öll ákvarðanataka sé gegnsæ og að jafnræðis sé gætt á milli aðila þegar leyst er úr vanda fjölda einstaklinga en mér sýnist því miður svo ekki vera í þessu stóra máli.

Einstaklingar sem hafa átt í þessum sjóðum hafa ítrekað hlustað á fullyrðingar viðskiptaráðherra um að eigendur hlutdeildarskírteina í peningamarkaðssjóðum verði skoðaðir sérstaklega og að algjörlega sé ljóst að jafnræðis verði gætt á milli þeirra og viðræður standi yfir við minni fjármálafyrirtæki um lausn málsins.

Í framhaldi af þessum miklu yfirlýsingum ráðherra gerðist það allt á einum og sama deginum að viðskiptabankarnir þrír keyptu í „eigin sjóðum“ þó að algjörir kínamúrar eigi að vera á milli rekstrar þeirra sjóða og viðskiptabankanna. Það gerðu þeir á einum og sama deginum. Við hljótum að velta því fyrir okkur hvort um samráð hafi verið að ræða við þessi kaup. Við hljótum líka að velta því fyrir okkur hversu miklum fjármunum hafi verið varið til þessara kaupa.

Með þessu var vissulega takmarkað tjón þeirra sem eiga í peningamarkaðssjóðum sem tengdust viðskiptabönkunum þremur. Þá standa eftir aðrir einstaklingar sem voru svo óheppnir að eiga í peningamarkaðssjóðum sem voru á vegum annarra aðila en þessara þriggja viðskiptabanka. Þeir sitja eftir með sárt ennið, með óbætt tjón, og við hljótum að spyrja hæstv. ráðherra hvernig það gangi að leysa úr vanda þessara einstaklinga þar sem hann hafði svo miklar áhyggjur af hinum sem voru í viðskiptum við sjóði sem tengdust viðskiptabönkunum þremur.

Við erum ekki að ræða um lítinn hóp, hæstv. forseti. 4.000 einstaklingar tilheyra þessum hópi, einstaklingar sem eiga margir hverjir allt sitt undir því að úr þessum málum verði leyst. Ég spyr hæstv. ráðherra hvernig gangi að ræða við þær fjármálastofnanir sem þessir einstaklingar voru svo óheppnir að eiga viðskipti við vegna þess að ríkisbankarnir þrír ákváðu að nota stóran hluta af sínu eigin fé til kaupa á bréfum í þeim peningamarkaðssjóðum sem tengdust þeim bönkum.

Ég vil fá svar við eftirtöldum spurningum, hæstv. forseti:

1. Hefði ekki verið eðlilegra að ríkisbankarnir þrír hefðu gætt jafnræðis og keypt eignir út úr öllum peningamarkaðssjóðum innlendra fjármálastofnana?

2. Hversu háu hlutfalli af eigin fé ríkisbankanna þriggja var varið til kaupa á eignum peningamarkaðssjóðanna? Heyrst hefur í viðskiptanefnd þingsins að þar sé um að ræða 200 milljarða kr. Sú upphæð er á huldu, að mér heyrist, en ég vil að hæstv. viðskiptaráðherra upplýsi okkur um það hversu háum fjármunum var varið þennan örlagaríka dag þegar allir viðskiptabankarnir keyptu á sama degi í sínum eigin sjóðum.

3. Telur hæstv. ráðherra eðlilegt að bráðabirgðastjórnir ríkisbankanna taki slíkar meiri háttar ákvarðanir án samþykkis eigandans?

4. Þar sem bankarnir keyptu nær eingöngu eignir í sínum sjóðum, er ekki ljóst að reglur um sjálfstæði og óhæði hafi verið virtar að vettugi? Vísa ég þá til þess hversu miklir kínamúrar eiga að vera á milli þessara rekstrarfélaga og viðkomandi banka.

5. Voru kaup á bréfum peningamarkaðssjóðanna tilkynnt til Fjármálaeftirlitsins?

6. Hyggst ráðherrann beita sér fyrir því að allt verði uppi á borðum varðandi kaup á bréfum þessara sjóða? Við erum ekki að tala um litla hagsmuni, við erum að tala um milljarðatugi, jafnvel allt að 200 milljörðum króna ef marka má það sem við heyrum í viðskiptanefnd þingsins.

7. Hefur ráðherrann haft samráð við minni fyrirtækin eða var haft samráð við minni fyrirtækin þegar ákvörðun var tekin um að greiða allt út hjá stóru bönkunum? Ef svo var ekki, hvers vegna í ósköpunum?

8. Ég minni ráðherrann á að hann hefur ítrekað sagt að gæta verði jafnræðis og að sé unnið að lausn þessa stóra máls. Er einhver lausn í sjónmáli og hvað felur þá sú lausn í sér, hæstv. forseti?