136. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2008.

peningamarkaðssjóðir.

[11:28]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrir að taka þetta mál hér upp. Jafnframt lýsi ég vonbrigðum með svör ráðherra sem reyndar er orðinn ótrúlega margsaga varðandi málefni þessara peningamarkaðssjóða. Þetta er mjög mikilvægt mál sem við ræðum hér en við skulum muna að það er aðeins lítill hluti af þeirri stóru mynd sem smám saman er að skýrast eftir hrun bankanna og viðbrögðum ríkisstjórnarinnar við því. Það blasir nefnilega alls staðar það sama við, það er fum og ógegnsæi og ekki síst tregða til að velta við hverjum steini.

Öll meðferð þessa máls er alfarið á ábyrgð ríkisstjórnarinnar sem hefur beint í hverju skrefi tilmælum til skilanefnda í gegnum Fjármálaeftirlitið, hvernig að þessu skuli staðið og það jafnvel í smáatriðum. Þessi sama ríkisstjórn, sérstaklega viðskiptaráðherra og fjármálaráðherra, neitar hins vegar að upplýsa á Alþingi hvernig að málum er staðið og bera við bankaleynd. Ég hef beint ítarlegum fyrirspurnum, bæði til þessara hæstv. ráðherra beggja um málefni sjóðanna, um ráðstöfun þess sem sagt er nema 200 milljörðum af ríkisfé, af eigin fé bankanna, og hver tók ákvörðun um hana. Ég vísa til svara við þeim á þskj. 277 og 306. Fjármálaráðherra svaraði eins og vant er út í hött og sagði: Ekki benda á mig. Það er sérkapítuli hvernig sá hæstv. ráðherra kýs að umgangast þennan þátt þingskapanna.

Hæstv. viðskiptaráðherra neitar að svara nokkru um samsetningu þessara sjóða, m.a. hversu margir áttu yfir milljarð í þessum sjóðum. Hverjir áttu svo minna, almennan sparnað? Af þessum stóru aðilum má nefna tryggingafélögin, lífeyrissjóðina, Reykjavíkurborg og Landsvirkjun. Það eru þeir stóru aðilar sem notuðu peningamarkaðssjóði sem gegnumstreymissjóð í tekjuflæði sínu.

Ég hefði viljað sjá (Forseti hringir.) að þarna hefði verið gerður greinarmunur á almennum sparnaði — fyrst að ríkið leggur pening í þetta — sem er kannski á bilinu 1 milljón upp í 25 eða 30 milljónir kr. (Forseti hringir.) og ég mun krefjast þess að þeim spurningum sem ráðherrarnir hafa ekki (Forseti hringir.) svarað hér verði svarað í hv. viðskiptanefnd þingsins.