136. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2008.

peningamarkaðssjóðir.

[11:33]
Horfa

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga atriði. Hæstv. viðskiptaráðherra vitnaði hér í grein, góða grein sem birtist í Morgunblaðinu í morgun, eftir Grétu Mjöll Bjarnadóttur. En tilvitnun lauk fullsnemma því að í greininni stendur:

„Staðreyndin er þessi: Sparnaður í peningamarkaðssjóðum bankanna var alls enginn áhættusparnaður og á skilið sömu meðhöndlun frá hendi ríkisins eins og annar venjulegur sparnaður.“

Og áfram segir í greininni, með leyfi forseta:

„Spyrjið Bandaríkjamenn, þeir ríkistryggðu peningamarkaðssjóði um miðjan september síðastliðinn um leið og titrings varð vart.“

Síðan lýkur greininni með þessum orðum:

„Við það verður ekki unað að fólki og fyrirtækjum sem þarna höfðu sinn venjulega sparnað sé mismunað gagnvart öðrum eigendum venjulegs sparifjár.“

Það er þungamiðjan í því sem hér er um að ræða, að meginhluti þeirra og allir almennir notendur þessa sparnaðarforms töldu sig vera að leggja inn í örugga sparnaðarleið og raunverulega að þetta væri bara almennur sparnaðarreikningur.

Að mínu viti voru gerð stórfelld mistök þegar ríkisstjórnin tók þá ákvörðun að vernda sparifé landsmanna en undanskilja peningamarkaðssjóðina. Það má færa að því rök að hefði verið farið þar að með varúð og tekinn tími, eins og var vísað til í ræðu fyrrverandi forsætisráðherra Svía, Görans Perssons, um með hvaða hætti Svíar fóru út úr sinni bankakreppu þar sem áhersla var lögð á að taka tíma til að hámarka verðmæti þeirra hluta sem væru inni bönkunum. Þess (Forseti hringir.) var ekki gætt í þessu tilviki og vegna þessara mistaka ríkisstjórnarinnar eru menn að tapa og það er óviðunandi vegna þess að jafnræðis var ekki gætt. Það (Forseti hringir.) er það alvarlega í málinu.