136. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2008.

peningamarkaðssjóðir.

[11:36]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Því miður er vandfundið það mál þar sem ráðherra hefur verið á jafnmiklum harðahlaupum undan eigin ummælum. Það er kannski til marks um það, því miður, hversu mikið ógagnsæi hefur verið í þessu máli öllu.

Hæstv. viðskiptaráðherra fullyrti hér í umræðu að viðræður væru hafnar milli viðeigandi ráðuneyta og smærri fjármálafyrirtækja um afdrif peningamarkaðssjóðanna. Það voru röng ummæli, engar slíkar viðræður voru í gangi.

Ég spurði líka hæstv. viðskiptaráðherra út í það að aðstoðarmaður hans sendi tölvubréf til forsvarsmanna sjóða stóru bankanna þriggja en ekki smærri fyrirtækjanna, um samræmdar aðgerðir við útfærslu á útgreiðslu úr peningamarkaðssjóðunum. Mér finnst grafalvarlegt að stjórnvöld skipti sér með beinum hætti af málefnum stóru bankanna og eins og komið hefur fram í umræðum er nú ekki um litlar upphæðir að ræða, 200 milljarðar hvorki meira né minna. Viðskiptaráðherra fullyrti í svari við fyrirspurn minni að aðstoðarmaður hans hafi verið að fylgja eftir sérstökum tilmælum FME til stóru bankanna. Það er enn á ný rangt. Þessum tilmælum var beint til allra smærri fjármálafyrirtækja.

Það sem eftir stendur í þessu máli er ógagnsæi. Það vantar upplýsingar og ekki hefur verið gætt jafnræðis þvert á fullyrðingar hæstv. viðskiptaráðherra þar um.