136. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2008.

peningamarkaðssjóðir.

[11:38]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Við lifum dapra tíma. Í því kerfishruni sem við stöndum frammi fyrir eru mýmörg mál sem þurfa að koma til skoðunar og rannsóknar. Eitt af þessum málum eru málefni peningamarkaðssjóða. En við þurfum m.a. að líta til markaðssetningar þeirra, notkun þess fjár sem í þá barst og síðan uppgjörs sjóðanna svo eitthvað sé nefnt.

Uppgjör sjóðanna hefur einmitt verið gagnrýnt bæði af hálfu þeirra sem vilja ganga lengra í útgreiðslu þeirra en einnig þeirra sem telja að of langt hafi verið gengið. Það hefur hins vegar ítrekað komið fram í umræðunni að ákvörðunin um uppgjör þessara sjóða var byggð á viðskiptalegum forsendum og engum pólitískum þrýstingi var beitt. Enn hefur ekkert komið fram sem bendir til annars. Rétt er að vekja athygli á því að það voru ekki aðeins ríkisbankarnir sem stóðu fyrir útgreiðslum á þessum sjóðum, einkafjármálastofnanir hafa sömuleiðis gert það og varla halda þingmenn að stjórnmálamenn hafi verið að þvinga þær einnig til tiltekinna aðgerða.

Því er einfaldlega ekki hægt að taka undir þær kröfur sem hér hafa heyrst og annars staðar að pólitískum þrýstingi verði beitt með óeðlilegum hætti gagnvart bönkunum, enda væru menn þá að fórna jafnræði og fjölmörgum grundvallaratriðum.

Hins vegar er rétt að það komi fram að viðskiptanefnd Alþingis sendi bönkunum þann 14. nóvember sl. fjölmargar spurningar um uppgjör peningamarkaðssjóðanna, eignasamsetningu þeirra, verðmæti eigna á bak við þá og einnig um hreyfingar úr sjóðunum. Því miður hafa enn engin svör borist frá bönkunum við þessum spurningum og ekki einu sinni hvort þeim sé í raun óheimilt að veita þessar upplýsingar eða hvort ekki sé hægt að veita þær af einhverjum ástæðum. Að mínu mati gengur það að sjálfsögðu ekki að þessir aðilar svari ekki þingnefnd með einum eða öðrum hætti.

Frú forseti. Að mínu mati skiptir miklu máli að öllum steinum sé hér velt við og allri tortryggni eytt. Og ég fullyrði það að hæstv. (Forseti hringir.) viðskiptaráðherra hefur svo sannarlega talað fyrir slíku og beitt sér fyrir því að auka gagnsæi í þessu máli sem er afskaplega flókið eins og allir átta sig á.