136. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2008.

peningamarkaðssjóðir.

[11:43]
Horfa

Björk Guðjónsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Fram hefur komið, bæði hjá hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. viðskiptaráðherra, í skriflegu svari við fyrirspurn sem lögð var fram á Alþingi að ákvörðun bankanna að kaupa verðbréf af peningamarkaðssjóðum var gerð á ábyrgð bankanna og var algerlega á viðskiptalegum forsendum.

Ljóst er að sumir þeirra sem áttu fé inni á peningamarkaðssjóðum eru ekki sáttir við það uppgjör sem gert hefur verið á sjóðunum og vefengja það mat sem fram fór á eignasafni þeirra. Þá telja margir viðskiptavinanna að þeir hafi fengið rangar upplýsingar í viðskiptabönkum sínum varðandi peningamarkaðssjóðina og halda því fram að starfsfólk bankanna hafi sagt að þetta væri fullkomlega örugg ávöxtunarleið. Það veldur óánægju þessa fólks. Peningamarkaðssjóðir eru hins vegar í eðli sínu eins og nafnið gefur til kynna háðir sveiflum á markaði og því er hættan til staðar.

Af umræðum um þessi mál má ráða að þeir sem áttu fjármuni inni í þessum sjóðum telja að sjóðirnir hafi fjárfest í misöruggum bréfum. Ég tel að þessi mál hljóti að verða könnuð þegar allt sem viðkemur hruni bankanna verður kannað, sérstaklega í ljósi þess hversu margir telja á rétti sínum brotið. Þau atriði sem hafa valdið deilum og ekki hafa fengist skýr svör við þarf að upplýsa. Tortryggni virðist einkenna umræðuna um of og nauðsynlegt er að eyða henni.

Af þeirri umfjöllun sem farið hefur fram um þessi mál og þeim svörum sem hæstv. ráðherrar fjármála og viðskipta hafa lagt fram á Alþingi virðist mér hins vegar ljóst að það eru sjóðirnir sjálfir sem þurfa að svara fyrir fjárfestingarstefnu sína og nýju bankarnir þurfa að fullvissa almenning um að verðmæti bréfanna sem keypt voru út úr sjóðunum hafi hvorki verið ofmetin né vanmetin heldur hafi viðskiptin verið gerð á fullkomlega viðskiptalegum forsendum.