136. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2008.

peningamarkaðssjóðir.

[11:45]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrir að hefja máls á þessu og hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ráðherrann gat þess í upphafi að hann teldi sig þurfa að hafa rýmri tíma til að fara yfir efnið. Ég hygg að það sé réttmæt ábending og hvet ráðherrann til að íhuga hvort ekki sé rétt að hann flytji hér mjög fljótlega skýrslu um þetta mál.

Mér er ljóst að þetta er eitt af þeim atriðum sem verður tekið til athugunar í svonefndri rannsóknarnefnd en ég held að það séu það mikil álitamál í þessu peningamarkaðssjóðamáli að full ástæða sé til að taka það út úr og að ráðherra gefi þinginu skýrslu, munnlega eða skriflega eftir atvikum, mjög fljótlega þar sem betur verður farið yfir ástæður þessa máls og forsendur. Í fyrsta lagi þarf að skýra hvers vegna ákveðið var að nota fé úr ríkissjóði til þessara hluta. Samþykkt var með neyðarlögum að setja stórfé úr ríkissjóði til að endurreisa bankana, til að búa til eigið fé fyrir þá. Þarna var tekin ákvörðun um að nota stóran hluta af þessu eigin fé og breyta í pappíra sem er alls ekki víst að séu þess virði sem þeir voru keyptir á. Það er sjálfstæð ákvörðun sem ég held að þurfi að útskýra betur og færa rök fyrir að nauðsynlegt hafi verið að gera. Ég hef ekki fengið neinn sannfærandi rökstuðning enn þá fyrir því að þetta hafi verið rétt að gera yfir höfuð.

Í öðru lagi þarf að gefa skýringar á framgöngu starfsmanna viðskiptabankanna gömlu sem vitað er að höfðu samband við einstaka sparendur, höfðu upplýsingar um fjárhagsstöðu þeirra og hvöttu þá til að færa þá úr öruggum reikningum í þessa reikninga gegn fullyrðingum um að þetta væri fullkomlega öruggt sem reyndist svo rangt.

Í þriðja lagi þarf að varpa skýrara ljósi en komið hefur fram á þátt (Forseti hringir.) sumra fyrri eigenda bankanna sem virðast hafa notað þessa peninga til að styrkja eigin fyrirtæki. Það þarf að skýra, virðulegur forseti.