136. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2008.

Ríkisútvarpið ohf.

218. mál
[11:53]
Horfa

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um Ríkisútvarpið ohf. Frumvarpið felur í sér endurskoðun á ákvæðum laganna er varða tekjustofna Ríkisútvarpsins ohf. og tillögur sem miða að því að gera starfsemi félagsins gagnsærri og bæta ekki síður samkeppnisumhverfi fjölmiðla. Helstu breytingar frumvarpsins eru í fimm liðum:

Í fyrsta lagi lúta þær að ákvæðum 11. gr. laganna um tekjustofna Ríkisútvarpsins ohf. Er þar annars vegar lögð til hækkun sérstaks gjalds sem lagt verður á einstaklinga og fyrirtæki og kemur í stað núverandi afnotagjalds um næstu áramót og hins vegar er tillaga er lítur að því að takmarka tekjur félagsins af auglýsingum og kostun eins og ég mun koma nánar að í ræðu minni á eftir. Það er búið að samþykkja þessa breytingu, það er nú þegar í lögum. Nýtt útvarpsgjald snertir sérstaklega ákveðnar breytingar á fjárhæðinni.

Við setningu laganna var við það miðað að áður en að upptöku gjaldsins kæmi, yrði fjárhæð þess endurskoðuð. Við þá vinnu hefur jafnframt verið talið rétt að gera ákvæði laganna er varða framkvæmd við innheimtu gjaldsins og ráðstöfun þess skýrari en nú er í gildandi lögum. Þannig gerir frumvarpið ráð fyrir því að gjaldið renni í ríkissjóð en ekki til félagsins. Í þessu samhengi er í frumvarpinu lagt til að í þjónustusamningi menntamálaráðherra og Ríkisútvarpsins ohf. verði m.a. kveðið nánar á um markmið og umfang útvarpsþjónustu í almannaþágu. Um slíkan þjónustusamning munu að öðru leyti gilda fyrirmæli 30. gr. laga um fjárreiður ríkisins eftir því sem við á. Gera má ráð fyrir því að tekjur af gjaldinu muni ásamt öðru hafa áhrif á ákvörðun um greiðslur samkvæmt þjónustusamningnum. Samkvæmt því fyrirkomulagi sem hér er lagt til ættu fjárhagslegar forsendur fyrir framkvæmd þjónustusamningsins að vera ljósar.

Hvað viðkemur fjárhæð gjaldsins er lagt til að það hækki úr 14.580 kr. í 17.900 kr. Rétt er að árétta sérstaklega hér að í frumvarpi því sem varð að lögum um Ríkisútvarpið ohf. kemur fram að við útreikning gjaldsins var gert ráð fyrir óbreyttum tekjum fyrirtækisins og þá höfð hliðsjón af tekjustreymi félagsins á árunum 2005 og 2006. Jafnframt var byggt á því að allir sem féllu undir lögin stæðu skil á gjaldinu. Einnig vil ég árétta þau sjónarmið sem höfð voru að leiðarljósi við setningu laganna að haga bæri álagningu gjaldsins þannig að hvert heimili með tvo einstaklinga sem greiða mundu gjaldið yrði nokkurn veginn jafnsett eftir upptöku þess. Tveir einstaklingar í heimili eru því jafnsettir og heimili sem greiðir nú eitt afnotagjald. Þeir sem greiða munu gjaldið eru þeir einstaklingar sem greiða í Framkvæmdasjóð aldraðra svo og þeir lögaðilar sem eru skattskyldir og bera sjálfstæða skattaðild. Undanskilin álagningu gjaldsins eru dánarbú, þrotabú og ýmsir lögaðilar, svo sem stofnanir í eigu ríkis og sveitarfélaga, félagasamtök og sjálfseignarstofnanir sem ekki eru reknar í hagnaðarskyni. Undanþegnir gjaldinu eru einstaklingar yngri en 16 ára og 70 ára og eldri og jafnframt einstaklingar með tekjuskattsstofn undir 1.080.067 kr. Eins og kom fram við umræðuna á sínum tíma um lagasetninguna á Ríkisútvarpinu ohf. mun því meginþorri íslenskra fjölskyldna hafa það betra undir þessu fyrirkomulagi en undir núgildandi fyrirkomulagi.

Árleg greiðsluskylda útvarpsgjalds samkvæmt gildandi lögum nemur nú 35.940 kr. á hvert heimili. Hér er eins og áður segir lagt til að hækkun gjaldsins frá því sem ákveðið er í 1. tölul. 1. mgr. 11. gr. laga um Ríkisútvarpið ohf. taki mið af því sjónarmiði sem áður er lýst, að haga beri álagningu gjaldsins þannig að heimili með tvo einstaklinga sem greiða mundu gjaldið verði því næst jafnsett eftir upptöku þess. Jafnframt tekur hækkun gjaldsins mið af því sjónarmiði, og það er rétt að undirstrika það, að skapa svigrúm fyrir minni tekjur félagsins á auglýsingamarkaði. Samkvæmt þessu yrði gjaldið 17.900 kr. Tekjuaukning félagsins stafar að mestu af því að lögaðilar með sjálfstæða skattaðild greiða nú gjaldið en greiddu það ekki áður. Rétt er að benda á að upptaka gjaldsins snertir gjaldendur með ólíkum hætti eftir því annars vegar hve margir deildu greiðslum afnotagjalds og hins vegar hvernig álagningin varðar einstaklinga og lögaðila. Þannig munu sumir verða undanþegnir gjaldinu og greiðslur þeirra sem eru einir í heimili munu í flestum tilvikum lækka.

Ég geri mér grein fyrir því að þessi leið við innheimtu, frú forseti, er ekki gallalaus fremur en aðrar. Það verður aldrei til vinsælda fallið að innheimta gjöld fyrir einhverja tiltekna þjónustu, þannig er nú einu sinni lífið. Á meðan sátt er um að halda úti ríkisútvarpi verður hins vegar að tryggja fjármögnun þess með skilvirkum hætti. Afnotagjaldið gamla má segja að sé úr sér gengið, ekki síst vegna breyttrar tækni. Því var ákveðið á sínum tíma að taka upp nýtt innheimtuform. Það er mikilvægt að hafa hugfast að fyrir langflest heimili þýðir þetta ekki auknar álögur heldur verða þau jafnsett. Þá verðar stórir hópar sem í dag greiða afnotagjald undanþegnir hinu nýja útvarpsgjaldi, t.d. einstaklingar 70 ára og eldri og þeir sem eru með tekjur undir skattleysismörkum.

Í öðru lagi er eins og ég hef rakið hér að framan lagt til að ákvæði laganna um þjónustusamning um rekstur útvarpsþjónustu í almannaþágu á milli menntamálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs og Ríkisútvarpsins ohf. verði gerð ítarlegri en nú er.

Í þriðja lagi er lagt til að þrátt fyrir ákvæði 5. gr. laganna um fjárhagslegan aðskilnað verði Ríkisútvarpinu ohf. eftirleiðis heimilt að ráðstafa fjármunum frá rekstri annarrar starfsemi skv. 4. gr. til greiðslu kostnaðar vegna útvarpsþjónustu í almannaþágu skv. 3. gr. laganna. Verður að telja slíkt mikilvægt til þess að hvetja Ríkisútvarpið ohf. til aukinnar verðmætasköpunar og öflugrar útvarpsþjónustu í almannaþágu.

Í fjórða lagi er lagt til að sett verði sérstakt ákvæði sem takmarkar heimild Ríkisútvarpsins ohf. til tekjuöflunar með sölu auglýsinga, kostun og vöruinnsetningu. Með þessu er sköpuð umgjörð um þátttöku Ríkisútvarpsins ohf. á auglýsingamarkaði. Í því felst jafnframt að svigrúm Ríkisútvarpsins ohf. til þess að afla sér tekna með auglýsingum verður takmarkað verulega, en á móti kemur eins og áður segir að gjald það er kemur í stað útvarpsgjaldsins verður hækkað frá því sem ráð er fyrir gert í 11. gr. laganna. Sú tilhögun sem hér er lögð til hefur meðal annars haft hliðsjón af vinnu nefndar með fulltrúum allra stjórnmálaflokka sem verið hefur að störfum á undanförnum vikum. Þótt það frumvarp sem hér er til umræðu sé stjórnarfrumvarp og fyrst og fremst samkomulag milli stjórnarflokkanna var sú umræða sem fór fram í nefndinni og þær upplýsingar sem fram komu á fundum hennar ómetanlegar við þessa vinnu. Ég vonast til þess að sú vinna skili sér líka inn í hv. menntamálanefnd og menn muni nýta sér þau gögn sem fyrir liggja í starfshópnum og veit ég að þeir sem eru nú þegar í menntamálanefnd og tóku þátt í starfshópnum munu miðla af þekkingu sinni inn í þetta þannig að það verði tryggt. Þess vegna vil ég nota þetta tækifæri, frú forseti, og þakka nefndinni og þeim nefndarmönnum sem hafa verið í starfshópnum sérstaklega fyrir störf sín. Ég mun leggja það til við nefndarmenn að þeir starfi áfram og hafi m.a. það hlutverk sem kemur fram og var upphaflega ætlunin að fara yfir eignarhald á fjölmiðlum, hvaða leiðir er best að fara í breyttu umhverfi og jafnframt að nefndinni verði falið það verkefni að fylgja eftir þeim endurskoðunarákvæðum sem er að finna í frumvarpi þessu auk annarra verkefna á sviði fjölmiðlunar. Ég legg ríka áherslu á það að allir flokkar á þingi komi að því að fylgjast með fjölmiðlum, að við höfum aðgang allra flokka að því að miðla þekkingu en ekki síður að halda uppi eftirliti, þá auðvitað í samráði og samvinnu við bæði ráðuneytið en ekki síður útvarpsréttarnefnd.

Í frumvarpinu eru lagðar til töluverðar breytingar á hlutfalli auglýsinga í dagskrá Ríkisútvarpsins ohf. Þannig er gert ráð fyrir að hlutfall auglýsinga af daglegum útsendingartíma skuli ekki vera hærra en 10%. Á kjörtíma, þ.e. útsendingartíma frá 19 til 22, má hlutfall þetta ekki vera hærra en 5%. Þar sem nokkur óvissa ríkir um horfur á fjölmiðlamarkaði og hvaða áhrif skerðing á svigrúmi RÚV á auglýsingamarkaði kann að hafa á tekjustreymi félagsins og auglýsingamarkaðinn almennt, er lagt til í ákvæði til bráðabirgða að þetta fyrirkomulag verði endurskoðað fyrir 1. júlí 2009.

Þá er við það miðað að hver auglýsingatími skuli vera innan við 200 sekúndur eða rúmar þrjár mínútur hið mesta. Enn fremur að ekki megi vera fleiri en tveir auglýsingatímar á hverri klukkustund útsendingar og að Ríkisútvarpinu ohf. verði óheimilt að rjúfa dagskrárliði sem eru styttri en 45 mínútur með auglýsingatíma.

Jafnframt er í frumvarpinu lagt til að Ríkisútvarpinu ohf. verði óheimilt að sýna auglýsingar á meðan á útsendingu barnaefnis stendur og að ekki megi sýna auglýsingar sem beinast að börnum í tíu mínútur fyrir og eftir útsendingu barnaefnis. Þá er félaginu óheimilt að afla tekna með vöruinnsetningu. Loks er lagt bann við því að félagið megi afla tekna með kostun nema þegar um er að ræða tiltekna stórviðburði. Þetta atriði vil ég biðja nefndina líka að skoða sérstaklega, ekki síst með tilliti til mikilvægis íþrótta á þessu sviði.

Loks eru í fimmta lagi lagðar til breytingar sem miða að því að koma á skilvirku eftirliti með starfsemi Ríkisútvarpsins ohf., þar á meðal með álagningu stjórnvaldssekta, og skilja með afgerandi hætti á milli eftirlits með lögunum og eignarhalds á félaginu.

Með þessum takmörkunum á svigrúmi Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði er lögð til róttæk breyting. Mjög mismunandi reglur gilda um auglýsingar í ríkisreknum fjölmiðlum í Evrópu. Á hinum Norðurlöndunum og á Bretlandi eru auglýsingar ekki heimilaðar í ríkisreknum ljósvakamiðlum. Í flestum öðrum Evrópuríkjum eru þær heimilaðar en stundum með einhverjum takmörkunum eins og gerist til að mynda í Þýskalandi hjá ARD og ZDF þar sem auglýsingar eru, að mig minnir, aðeins leyfðar milli 6 og 8 en síðan eru kostanir líka leyfðar í ríkisfjölmiðlunum þar. Það er því mismunandi háttur hafður á víðs vegar um Evrópu en þau lönd sem við höfum miðað okkur við fram til þessa, Norðurlöndin og Bretland, eru ekki með auglýsingar.

Á Íslandi hefur hins vegar verið annar háttur á alveg frá upphafi og í sögu Ríkisútvarpsins hafa auglýsingar verið leyfðar bæði í útvarpi og sjónvarpi. Það fyrirkomulag hefur verið tiltölulega óumdeilt þótt vissulega hafi það oft verið gagnrýnt, við skulum ekkert leyna því. Ekki þótti til að mynda ástæða til þess á sínum tíma að breyta þessu er útvarpslögum var breytt um miðjan níunda áratuginn og öðrum en ríkinu var heimilað að reka útvarps- og sjónvarpsstöðvar. Þegar frelsið var innleitt á ljósvakamarkaði þótti ekki ástæða til að breyta auglýsingahlutverki Ríkisútvarpsins en núna eru hins vegar allt aðrar aðstæður uppi á fjölmiðlamarkaði.

Það er aftur á móti mikilvægt, frú forseti, að hafa þessar reglur til stöðugrar endurskoðunar. Fjölmiðlun á Íslandi stendur mjög höllum fæti þessa stundina vegna efnahagsástandsins sem m.a. hefur leitt af sér hrun á Íslandi. Ég hef áður lýst því yfir að ég stefndi að því að takmarka hlut ríkisins á auglýsingamarkaði, ég hef aldrei farið leynt með þá ætlun mína. Í ljósi þeirrar stöðu sem komin er upp tel ég það brýnna en nokkru sinni fyrr að skoða þær leiðir sem við getum farið til að stuðla annars vegar að halda Ríkisútvarpinu sterku. Þessar tillögur eru og eiga ekki að vera til þess fallnar að veikja Ríkisútvarpið. Það á að taka tillit til þess tekjumissis sem Ríkisútvarpið verður hugsanlega fyrir en ekki síður verðum við að axla þá ábyrgð og bera þá ábyrgð að það verði ákveðin fjölbreytni í ljósvakamiðlum á Íslandi. Þessar tillögur leiða vonandi til þess að hægt sé að taka tillit til þessara sjónarmiða.

Hins vegar verða menn einnig að hafa hugfast, og það er rétt að undirstrika það, að Ríkisútvarpið er ekki eins fyrirferðarmikið á auglýsingamarkaði og margir vilja vera láta. Ef litið er á allan auglýsingamarkaðinn í heild er hlutur þess rétt rúm 10% en ef einungis er litið á markaðinn fyrir sjónvarpsauglýsingar hefur RÚV verið með innan við þriðjungs hlutdeild og minni hlutdeild en bæði Stöð 2 og Skjárinn. Þó sýna allar áhorfsmælingar gífurlega yfirburði Ríkisútvarpsins í áhorfi. Það má því segja að RÚV hafi ekki beitt því afli sem það gæti haft á markaðnum. Þessar tölur eru dregnar fram því að ýmsar sögur hafa verið í gangi sem eru ekki raunsannar varðandi hlut Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði.

Engu að síður er mikilvægt að hegðun ríkisrekins fjölmiðils á auglýsingamarkaði sé hafin yfir allan vafa þannig að um hana megi ríkja sátt. Því er einnig samhliða takmörkunum á svigrúmi Ríkisútvarpsins lagt til að reglur um eftirlit og viðurlög verði hertar til muna séu reglur brotnar. Þær reglur, t.d. er gilda um gjaldskrá RÚV, verða að vera skýrar og gagnsæjar og öll frávik frá gjaldskrá verða að standa öllum jafnt til boða.

Ég hef hér að framan gert grein fyrir þeim meginbreytingum sem felast í frumvarpinu. Þær breytingar sem hér eru lagðar til á fjárhagsmálefnum Ríkisútvarpsins ohf. er ætlað að skapa traustari grundvöll undir öfluga almannaþjónustu útvarpsins. En til þess að félagið geti sinnt þessari þjónustu sem skyldi í nánustu framtíð er einnig nauðsynlegt, eins og kom fram í máli mínu í utandagskrárumræðu fyrr í vikunni, að huga að því að styrkja efnahag félagsins frekar og þar með talið að skoða hvernig hægt er að létta á lífeyrisskuldbindingum félagsins. Það er m.a. hægt að gera í tengslum við fjárlög með því að þingið veiti heimild fyrir hönd ríkissjóðs til að kaupa hugsanlega hús Ríkisútvarpsins við Efstaleiti á markaðsverði. Ég tel mikilvægt að hv. menntamálanefnd og þingið fari yfir þessar tillögur.

Ég gat um það sjónarmið áðan, og vil undirstrika það, að viljum halda uppi öflugu ríkisútvarpi. Við viljum líka hafa fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði Það er ekki endilega eining eða samkomulag um hvernig á að nálgast þessi tvö sjónarmið. Það er búið að fara yfir alls konar leiðir. Það voru ræddar tillögur um að taka Ríkisútvarpið algjörlega af auglýsingamarkaði, því er ég ósammála. Ég tel mig finna fyrir því að flestir séu sammála um að það eigi að takmarka hlutdeild Ríkisútvarpsins að einhverju leyti á auglýsingamarkaði en það er ekki sama hvernig það er gert. Sú leið sem hér er farin er til komin eftir að menn hafa rætt þessar hugmyndir í fjölmiðlahópnum. Menn hafa fengið til sín vísustu menn og konur sem hafa þekkingu á þessum markaði og eru að reyna að finna leiðir sem stuðla að báðum þessum atriðum, þ.e. að hafa áfram öflugt ríkisútvarp en ekki síður að halda uppi ákveðinni fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði.

Ég segi það og ítreka það sem ég hef sagt áður að ef hv. menntamálanefnd finnur aðrar leiðir og telur þær heppilegri til að ná þessum markmiðum munum við að sjálfsögðu fylkja okkur á bak við þær. Ég hvet hv. menntamálanefnd til að fara mjög gaumgæfilega yfir þær hugmyndir sem hér liggja fyrir en ég tel þær skástu leiðina til að ná því markmiði okkar að hafa hér ákveðna fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði. Það hvílir mikil ábyrgð á herðum okkar sem stjórnum bæði ríkisfjármálunum og berum ábyrgð á fjölmiðlamarkaði á einn eða annan hátt að koma með tillögur sem stuðla að því að áfram verði ákveðin samkeppni og fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði. Það er að ýmsu að hyggja í þessu máli og ég veit að margir hafa áhyggjur af ákveðnum atriðum. Ég vil sérstaklega í því samhengi draga fram þær áhyggjur sem látnar hafa verið í ljós af hálfu íþróttaforustunnar varðandi kostun á íþróttaefni og ég hvet hv. menntamálanefnd til að skoða sérstaklega þann þátt og fara yfir hann.

Að lokum legg ég til, virðulegi forseti, að frumvarpinu verði að umræðu lokinni vísað til 2. umr. og hv. menntamálanefndar.