136. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2008.

Ríkisútvarpið ohf.

218. mál
[12:26]
Horfa

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi síðasta atriðið þá mótmæli ég því að ríkið hafi ekki staðið við skuldbindingar sínar. En síðan gleymdi hv. þingmaður einu sem vinstri grænir töluðu einatt um í umræðunni að þetta væri bara fyrsta skrefið að einkavæðingu Ríkisútvarpsins. Það er síður en svo þannig, við viljum hafa sterkt ríkisútvarp. Tillögurnar sem við erum að tala um núna varðandi hækkað afnotagjald bera þess merki að við viljum standa vörð um Ríkisútvarpið, við viljum styrkja það og meðal annars er inni í gjaldinu verið að taka tillit til hugsanlegrar skerðingar á auglýsingamarkaði. Það skiptir því miklu máli að frumvarpið verði afgreitt fyrir áramót þannig að Ríkisútvarpið standi sterkar eftir þessa umræðu.

Hv. þingmaður fór einmitt ágætlega yfir það í ræðu sinni hver sjónarmið Samkeppniseftirlitsins eru. En ég held að það væri varhugavert að gefa út þá línu að vegna þess hvernig markaðurinn er ættum við einfaldlega ekki að taka tillit til Samkeppniseftirlitsins. Auðvitað eigum við að taka tillit til þess sem þar kemur fram og þó að við séum ekki alltaf sammála öllum álitum sem koma frá Samkeppniseftirlitinu eða öðrum aðilum tel ég engu að síður ábyrgðarhluta ef við tökum ekki tillit til þeirra sjónarmiða sem þar koma fram.

Hv. þingmaður dró líka fram að ástandið á markaðnum er erfitt. Eigum við þá ekki í ljósi þess ástands að koma með neinar tillögur? Sú tillaga sem við erum að tala um er leið til að koma til móts við þau sjónarmið, annars vegar til að hafa sterkt ríkisútvarp og hins vegar til að halda áfram öðrum miðlum, Skjánum og 365 miðlum og líka prentmiðlum, því að Ríkisútvarpið hefur líka áhrif á prentmiðlana. Ég þá tel miklu skipta að menn komi með aðrar tillögur sem séu til þess fallnar að halda uppi einmitt þessum sjónarmiðum sem ég hef verið að leggja ríka áherslu á. Ég tók eftir því að forsvarsmenn Skjásins sögðu eða töldu sig alla vega sjá fram á breytingar í rétta átt í þessu frumvarpi þó að þeir hefðu vissulega viljað að við gengjum lengra. Þeir vildu taka ríkið af auglýsingamarkaði, því er ég ósammála, en þeir benda á að þetta sé skref í rétta átt til að tryggja tilveru þeirra.