136. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2008.

Ríkisútvarpið ohf.

218. mál
[13:49]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það kemur svolítið á óvart að hér skuli vera lagt fram stjórnarfrumvarp um breytingu á nýsettum lögum um Ríkisútvarpið, lögum sem voru sett eftir margra ára umfjöllun milli þáverandi stjórnarflokka þar sem leikurinn barst m.a. til ESA þar sem lagðar voru fyrir stofnunina hugmyndir að breytingum og lögin tóku síðan mið af því áliti sem þar fékkst. Ég er eindregið á þeirri skoðun að í svo fámennu ríki sem Íslandi sé nauðsynlegt að hafa ríkisútvarp sem er bæði öflugt sem útvarp og sjónvarp og gegnir því öryggishlutverki sem nauðsynlegt er að einhver aðili hafi á hendi hér á landi. Ég held að stjórnvöld verði að fara mjög varlega í að breyta stöðu Ríkisútvarpsins þannig að það veiki þetta meginhlutverk þess.

Þetta er ekki afmarkað við Ísland, heldur hefur viðhorf stjórnvalda og löggjafarþinga í flestum ef ekki öllum ríkjum Evrópu verið það að rétt sé að hafa ríkisútvarp. Deilur um það hvort eigi að hafa ríkisútvarp eða ekki eru miklu minni en um ýmis önnur atriði tengd fjölmiðlum þannig að ég læt það koma fram, virðulegi forseti, af þessu tilefni og ítreka afstöðu mína til Ríkisútvarpsins sem slíks. Það er enn þýðingarmeira í fámennu þjóðfélagi en fjölmennu því að það er miklu erfiðara að halda úti öðrum fjölmiðlum algerlega á forsendum einkareksturs en þar sem margmennið er meira. Í svo fámennu þjóðfélagi eins og hér er mjög erfitt að reka öfluga útvarps- og sjónvarpsstöð og fjölmiðla nema það sé mjög mikið góðæri og mikill kaupmáttur í viðkomandi þjóðfélagi. Það hefur að sumu leyti verið á undanförnum árum og þess vegna hefur verið töluverð gróska í fjölmiðlum en hún er miklu meiri en ætla má að efni standa til þegar horft er til lengri tíma. Ég held að menn þurfi að vera viðbúnir því að framboð af efni muni eitthvað minnka í fjölmiðlum á undanförnum árum miðað við það sem hefur verið á síðustu árum. Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt við það.

Það er t.d. ekki við því að búast að unnt sé að reka nema eina aðra sjónvarpsstöð fyrir utan ríkissjónvarpið með góðu móti. Það er hugsanlegt að reka einhverjar sérhæfðar stöðvar á takmörkuðu svæði með takmörkuðu efni en sem stöð sem sinnir landinu öllu er ekki við því að búast að svigrúm sé fyrir nema eina aðra stöð en Ríkisútvarpið. Ég held að einmitt í ljósi þess hversu miklir annmarkar eru þó enn á því að útvarps- og sjónvarpsstöðvar nái um allt land eigi menn ekki að veikja Ríkisútvarpið. Það eru ýmis svæði á landinu sem einkastöðvarnar þjóna ekki og munu væntanlega ekki gera í náinni framtíð, meira að segja á landsvæðum sem eru ekki fjarri höfuðborgarsvæðinu.

Meginkjarninn í þessu máli sýnist mér vera sá að mæta erfiðleikum fjölmiðla á einkamarkaði með því að þrengja að Ríkisútvarpinu og leggja aukna skatta á landsmenn, færa fé með óbeinum hætti yfir til einkafjölmiðlanna. Það sýnist mér vera kjarninn í þessu máli. Það versta í frumvarpinu er að tekjuöflunin og Ríkisútvarpið eru slitin í sundur. Í gildandi lögum hefur Ríkisútvarpið afnotagjaldið, og nefskattinn þegar þar að kemur. Þá er nefskatturinn gjald sem Ríkisútvarpið hefur til ráðstöfunar. Í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir því að slíta þarna í sundur þannig að nefskatturinn verði tekjuöflun ríkissjóðs, ekki Ríkisútvarpsins heldur ríkissjóðs, og síðan mun Ríkisútvarpið fá framlög af fjárlögum samkvæmt ákvörðun hverju sinni. Nefskatturinn er með þessu frumvarpi hættur að vera skattur til Ríkisútvarpsins, heldur er orðinn skattur til ríkissjóðs. Ég spái því að strax í öðrum fjárlögum héðan í frá muni ríkið taka hluta af þessum nefskatti og halda honum eftir og ekki skila honum inn í Ríkisútvarpið. (Gripið fram í.) Já, virðulegi forseti, ég er eiginlega á þeirri skoðun og leyfi mér bara að spá því. Ég trúi því að það gerist ekki strax í næstu viku þegar fjárlög verða afgreidd, en ég hef mikla trú á því að það verði strax í næstu fjárlögum þar á eftir, fyrir árið 2010, sem nefskatturinn verður orðinn hluti af tekjuöflun ríkissjóðs og Ríkisútvarpinu verði gert að skera niður, það fái ekki þennan nefskatt eins og gildandi lög kveða á um. Það finnst mér eiginlega vera skemmdarverk á löggjöfinni um Ríkisútvarpið, virðulegi forseti, sem er ekki nokkur leið fyrir mig að standa að og ég mun standa gegn því ákvæði frumvarpsins.

Mér finnst það heldur ekki vera hlutverk ríkisstjórnarinnar að nota Alþingi til að finna úrræði til að bjarga fjárhagslega illa stæðum fjölmiðlafyrirtækjum á einkamarkaði. Einkamarkaðurinn á að sjá um það. Fjölmiðlun á einkamarkaði hefur verið mjög lífleg á undanförnum árum. Hún hefur að mínu mati verið langt umfram það sem efni standa til, það sem neytendur eru tilbúnir til að borga. Þeir eru núna tilbúnir til að borga minna en áður og einkamarkaðurinn verður einfaldlega að draga saman seglin í samræmi við það. Hér reynir ríkisstjórnin að koma í veg fyrir að lögmál markaðarins nái fram að ganga með því að sækja fé í vasa skattgreiðenda og færa það með óbeinum hætti yfir í vasa þeirra sem eiga einkafjölmiðlana á Íslandi. Þeir eru bara því miður ekki nógu margir. Mér finnst ekki ráðlegt að gera þessa björgunaraðgerð nema að samhliða verði sett ákvæði um eignarhald á fjölmiðlum. Það vantar inn í þetta frumvarp og ég spyr: Hví er það svo að þessi ríkisstjórn hlífir Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og vill færa honum þessa peninga? Hvaða tök hefur hann á þessari ríkisstjórn að hann geti náð þessu fram? Hvers vegna gerir ríkisstjórnin ekki það hvort tveggja sem hún á að gera, og það vantar seinni hlutann, ákvæði um takmörkun á samþjöppun á eignarhaldi á fjölmiðlum?

Það er algerlega óásættanlegt að standa að þessum fjármagnsflutningum nema þetta verði gert samhliða þannig að við búum við þann einkafjölmiðlamarkað sem er sæmilega frjáls og óháður. Ég vil bæta því við, virðulegi forseti, að það vantar líka inn í löggjöfina ákvæði sem tryggja að þeir sem starfa á fjölmiðlunum, þ.e. blaðamenn og ritstjórar, séu óháðir eigendum fjölmiðlanna. Það eru engin ákvæði í lögunum í dag sem vernda þá fyrir húsbóndavaldi eigendanna. Enda sjáum við þess stað í fjölmiðlunum að húsbóndavaldið er sýnilegt oft og tíðum. Þetta þarf að gera, virðulegi forseti, og það er stórlega ámælisvert af ríkisstjórninni sem samanstendur af stærstu tveimur flokkum landsins sem hafa alla trú á frjálsri samkeppni að láta hjá líða að setja nauðsynleg ákvæði sem tryggja hér einhverja samkeppni, það sé ekki ofursamþjöppun fjölmiðla sem ekki eru í eigu ríkisins. Þetta þarf að gera, virðulegi forseti, og vantar inn í þetta mál.

Hitt vil ég taka undir sem fram kemur, og ég hygg að það hafi komið fram hjá mér við fyrri tækifæri eins og við afgreiðsluna á gildandi lögum um Ríkisútvarpið, að ég er á þeirri skoðun að Ríkisútvarpið hafi verið of fyrirferðarmikið á auglýsingamarkaði hér á landi, það hafi tekið of stórt pláss á þeim markaði sem fyrir hendi er og þrengt þannig að einkafjölmiðlunum. Það var sjónarmið mitt fyrir tveimur árum að það væri kannski helsti ágallinn á núgildandi lögum að ekki hefðu verið reistar skorður við tekjuöflun Ríkisútvarpsins að þessu leytinu til, enda varð það uppspretta meginóánægju aðila á einkamarkaði sem hefur verið fyrir hendi síðan þá og heldur frekar farið vaxandi en hitt. Menn rekja dæmi þess að Ríkisútvarpið hafi gengið nokkurt hart fram í þessum efnum sem ég skal ekki leggja mat á, en er auðvitað ekki til að hjálpa þeirra málstað ef svo er. Mér finnst skynsamlegt að setja takmörkun á svigrúm Ríkisútvarpsins að þessu leytinu til.

Ég er sammála þeim sjónarmiðum að það eigi ekki að ganga svo langt að banna Ríkisútvarpinu að vera með auglýsingar. Þar er ég að hugsa um hagsmuni þeirra sem borga auglýsingarnar, hagsmuni auglýsendanna sjálfra. Þeir segja fullum fetum að ef gengið yrði svo langt yrði við svo fáa að eiga að það yrði lítil samkeppni og þeim yrði gert að borga miklu hærra verð fyrir auglýsingatímana. Það verður að hafa svigrúm fyrir Ríkisútvarpið til að vera með auglýsingar til að tryggja ákveðna samkeppni um auglýsingaverðið og tryggja hagsmuni þeirra sem auglýsa. Ég er út af fyrir sig sammála þessum þætti í frumvarpinu þó að ég hafi ekki sett mig ofan í það í smæstu atriðum hvort sú útfærsla sem þar er gangi of langt eða ekki en í meginatriðum er ég sammála því að það sé rétt að takmarka möguleika Ríkisútvarpsins til auglýsinga og huga að stöðu þeirra sem eru utan Ríkisútvarpsins.

Virðulegi forseti. Það eru ýmis fleiri atriði sem má nefna en þetta eru stærstu atriðin að mínu viti. Það er þessi alvarlega aðgerð að slíta í sundur nefskattinn og þann sem á að fá skattinn sem verður auðvitað til þess að hann fær ekki skattinn þegar fram líða stundir nema að einhverju marki eins og ákveðið er hverju sinni í fjárlögum. Mér finnst það eiginlega alvarlegasta aðgerðin í þessu máli. Svo er hitt, að hækka skatta á almenning um 700–1.000 millj. kr. á ári og færa þá fjárhæð í raun og veru yfir til einkafjölmiðla án þess að setja þeim einhverjar frekari reglur til að starfa eftir, bæði hvað varðar eignarhald og sjálfstæði þeirra sem starfa að blaðamennsku. Það er hvort tveggja nauðsynlegt til að tryggja sæmilega vandaða umfjöllun fjölmiðla hér á landi sem auðvitað er það oft og tíðum en mér finnst líka ansi mörg dæmi um að svo sé ekki og mér finnst þau dæmi fara versnandi eftir því sem tíminn líður.

Ég hef svolitlar efasemdir um þetta hlutverk útvarpsréttarnefndar og að setja Ríkisútvarpið eitt fjölmiðla í þá stöðu að hafa yfir sér refsivöndinn. Ég veit svo sem ekki hverjum er ætlað að vera refsivöndur Ríkisútvarpsins í útvarpsréttarnefnd, hvort það er Kjartan Gunnarsson eða einhver annar slíkur sem á að passa að menn haldi sig innan þeirra marka sem honum sýnist að lögin kveði á um. Við fyrstu sýn finnst mér býsna langt gengið í að þrengja að Ríkisútvarpinu með þessu þó að ég geti fallist á að einhver aðili þurfi að sjá um að lögunum sé framfylgt. Eðlilegast er að ráðherrann geri það, til þess er hann, meginhlutverk framkvæmdarvaldsins er að túlka lögin.

Ég staldra aðeins við ákvæði til bráðabirgða um endurskoðun. Ég skil ekki alveg hvað í því felst að ákvæðin skuli sæta endurskoðun, hvort það þýði þá heimild til ráðherra til að gera breytingar án þess að leggja þær fyrir Alþingi eða hvort í því felist eitthvað annað sem ég hef ekki komið auga á.