136. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2008.

Ríkisútvarpið ohf.

218. mál
[14:10]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kom ekki að þessu máli á Alþingi 2005 þegar frumvarpið sem hæstv. menntamálaráðherra minnist á var til umræðu þannig að ég er ekki með í kollinum í svipinn hvernig atburðarásin var eða á hverju strandaði á þeim tíma.

Ég tek eftir því að hæstv. ráðherra segir að það þurfi að gera það sem ég nefndi, setja löggjöf um eignarhald á fjölmiðlum. Þótt það hafi kannski ekki verið eins skýrt þá skildi ég hana þannig að það þyrfti líka að huga að stöðu þeirra sem vinna á fjölmiðlunum þannig að tryggt sé að þeir geti unnið sitt starf algerlega óháðir húsbóndavaldi eigenda fjölmiðilsins. Það er lykilatriði að þessi staða sé trygg ef fjölmiðlar utan ríkisfjölmiðla eiga að ná einhverjum trúverðugleika til lengri tíma.

Mér finnst vel þessi virði að hreyfa við þeirri hugmynd að ríkið leggi fram fjármuni til að styrkja tiltekna starfsemi í einkafjölmiðlum sem renni til að styrkja stöðu sjálfstæðra fjölmiðlamanna, ef það er talið nauðsynlegt til þess að ná því markmiði fram. Því fé yrði að mínu mati vel varið ef þetta markmið næðist og stuðlaði að heilbrigðri umfjöllun um þjóðmál hér á Íslandi.