136. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2008.

Ríkisútvarpið ohf.

218. mál
[14:52]
Horfa

Herdís Þórðardóttir (S):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frumvarp um breyting á lögum nr. 6/2007, um Ríkisútvarpið ohf. Ríkisútvarpið gegnir mikilvægu hlutverki í samfélagi okkar og hefur gert allt frá stofnun þess 1930. Í meira en hálfa öld naut það þeirra forréttinda að hafa einkarétt á útsendingum hljóðvarps og sjónvarps. Eftir að sá einkaréttur var afnuminn fyrir rúmum 20 árum, í ráðherratíð Ragnhildar Helgadóttur menntamálaráðherra, breyttist rekstrarumhverfi Ríkisútvarpsins töluvert. En eftir að samkeppnin var innleidd í þennan hluta fjölmiðlareksturs hefur Ríkisútvarpið í raun notið töluverðs forskots á markaðnum með því að hafa bæði örugga tekjustofna í formi skuldbundins afnotagjalds og að auki fullt frelsi á auglýsingamarkaði.

Með frumvarpi því sem hæstv. menntamálaráðherra hefur nú mælt fyrir eru gerðar breytingar á lögum um Ríkisútvarpið ohf. sem sett voru í byrjun árs 2007. Þar var samþykkt að í stað afnotagjalds kæmi sérstakt gjald sem lagt yrði á skattskylda einstaklinga og lögaðila með ákveðnum takmörkunum. Þetta ákvæði á að koma til framkvæmda nú um næstu áramót.

Með þeim breytingum sem frumvarpið gerir ráð fyrir er verið að takmarka nokkuð þær tekjur sem Ríkisútvarpið getur aflað sér með öðrum hætti, þ.e. auglýsingum og kostun. Ég tel fyllilega tímabært að gera breytingar til að tryggja enn betur en verið hefur að fjölbreytni og virk samkeppni geti verið á fjölmiðlamarkaðnum.

Hvort þær breytingar sem frumvarpið gerir ráð fyrir duga til þess mun koma í ljós síðar. En hér virðist mér vera farið af stað af töluverðri hógværð og þessar breytingar eiga að gera Ríkisútvarpinu kleift að laga sig að breyttum aðstæðum í framtíðinni. Hér er verið að hækka útvarpsgjald, nefskatt, á móti væntanlegu tekjutapi Ríkisútvarpsins af minnkandi auglýsingatekjum. Hagur fyrirtækisins á því ekki að versna af þessum ástæðum.

Vissulega hafa verið sett fram sterk rök fyrir því að útvarp í almannaeigu og rekstur í almannaþágu eigi alls ekki að vera á auglýsingamarkaði, að opinbert fyrirtæki sem nýtur fastra tekna í formi nefskatts á nánast hvern einasta einstakling í landinu eigi ekki að vera á samkeppnismarkaði með auglýsingar. Það sjónarmið á vissulega rétt á sér og þarf að ræða ítarlega og með málefnalegum hætti. Á Norðurlöndunum eru ekki leyfðar auglýsingar í ríkisfjölmiðlum og í Evrópu eru þær víða takmarkaðar. Ég vil í þessari umræðu vekja athygli á nokkrum atriðum frumvarpsins.

Í fyrsta lagi tel ég til bóta að skýra betur markmið með sérstökum þjónustusamningi menntamálaráðherra og Ríkisútvarpsins eins og kveðið er á um í lögunum. Útvarpsréttarnefnd fær þarna mikilvægt verkefni með þeim breytingum sem frumvarpið gerir ráð fyrir að verði á 3. gr. laganna um hlutverk og skyldur. Hins vegar vakna upp spurningar um hvernig aðkoma stjórnar Ríkisútvarpsins er og á að vera að þjónustusamningnum, að eftirliti með honum og breytingum.

Í öðru lagi er brýnt að það sé algerlega skýrt að ákvæði 4. gr. frumvarpsins eigi eingöngu við um sjónvarp, bæði hvað varðar auglýsingar og kostun, nema ætlunin sé að takmarkanir eigi líka við um hljóðvarpið. Í því sem hér segir um kostun og skýringum sem fylgja með í athugasemdum frumvarpsins finnst mér ýmislegt orka tvímælis. Þar má nefna að gert er ráð fyrir að kostun sé óheimil nema þegar um er að ræða tiltekna stórviðburði, eins og segir í texta frumvarpsins. Miðað við það má segja t.d. að heimilt verði fyrir gosdrykkjaframleiðanda að kosta söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, Eurovision, eða íþróttaviðburði en óheimilt t.d. fyrir tryggingafélag að kosta gerð og birtingu fræðsluefnis um umferðaröryggi. Ég tel að hv. menntamálanefnd eigi að fara vel yfir þessi mál og athuga hvernig lagaákvæði um undanþágu frá banni um kostun verði best orðuð.

Í þriðja lagi finnst mér ástæða til að skoða sérstaklega hvort ákvæði til bráðabirgða, sem gerir ráð fyrir að ákvæði a-liðar 4. gr. verði tekið til endurskoðunar fyrir 1. júlí á næsta ári, sé með eðlilegum tímamörkum. Þarna er um að ræða ákvæði um takmarkanir á birtingu sjónvarpsauglýsinga og spurning hvort ekki þurfi lengri tíma til að meta áhrif þess en einungis nokkra mánuði áður en til endurskoðunar kemur.

Virðulegi forseti. Ríkisútvarpið hefur, eins og ég sagði í upphafi máls míns, mikilvægu hlutverki að gegna. Skyldur þess varða þjónustu við alla landsmenn og stjórnendur fyrirtækisins mega ekki gleyma því þó að höfuðstöðvar þess séu í Reykjavík. Mér fannst skjóta skökku við þegar ráðstafanir til að spara í rekstrinum voru kynntar fyrir skömmu — komu þá strax upp hugmyndir um að leggja niður starfsemi svæðisútvarpanna sem verið hafa í góðum gangi úti á landi og hafa aflað töluverðra tekna. Af 140 manna starfsliði fréttasviðs var strax ákveðið að höggva í raðir þeirra sem starfa úti á landi.

Það skiptir miklu máli þegar grípa þarf til sparnaðarráðstafana, eins og öll fyrirtæki og stofnanir hafa verið og verða að gera um þessar mundir, að stjórnendur séu vel meðvitaðir um hver kjarnastarfsemin eigi að vera og hvað eigi að teljast til viðbótarstarfsemi. Ákvörðun um að hætta starfsemi svæðisútvarpanna var sem betur fer dregin til baka.

Herra forseti. Ég styð frumvarpið sem hæstv. menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, hefur hér mælt fyrir og vænti þess að með því verði fjölbreytni tryggð á fjölmiðlamarkaði og virkari og heilbrigðari samkeppni en verið hefur.