136. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2008.

Ríkisútvarpið ohf.

218. mál
[15:00]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég hef ákveðnar efasemdir um að sú nefnd sem hefur verið að störfum og fjallað um breytingar á ríkissjónvarpinu varðandi auglýsingamarkaðinn hafi nálgast málið á réttum forsendum.

Í fyrsta lagi liggur sú ákvörðun fyrir, og um það er nokkuð almenn sátt í samfélaginu, að ríkisútvarp og ríkissjónvarp skuli vera í rekstri. Meðan sú ákvörðun stendur óbreytt og þessir fjölmiðlar eru reknir sem ríkisfjölmiðlar, og gegna svo veigamiklu hlutverki á þessum markaði sem raun ber vitni, er erfitt að sjá hvernig hægt er að takmarka aðgang þeirra að auglýsingamarkaði, þ.e. að takmarka aðgang auglýsenda að þessum fjölmiðlum sem dreifingarmiðli.

Auglýsingar hafa mikið samfélagslegt gildi, mikið upplýsingagildi og greiða leið upplýsinga frá fyrirtækjum og stofnunum til almennings í landinu. Það gildi mundi verulega dvína ef við hugsum okkur að taka svo öfluga fjölmiðla af markaðnum.

Það er líka hætta á því að mikill samdráttur yrði í framleiðslu sjónvarpsauglýsinga ef ríkissjónvarpið takmarkaði sína birtingartíma. Þá yrðu færri áhugaverðir auglýsingatímar en kostnaður við sjónvarpsauglýsingar er það mikill að hann er ekki réttlætanlegur nema þær nái til sem flestra og góðir auglýsingatímar séu í gangi sem hægt er að nota þá framleiðslu í.

Við takmörkun á framleiðslu innlendra sjónvarpsauglýsinga er verið að höggva mjög í raðir þeirra sem vinna við íslenska kvikmynda- og þáttagerð. Þetta er mjög góð aukabúgrein hjá mörgum þeirra og ákveðin hætta er á að enn frekar mundi dragast saman á þeim vettvangi.

Þannig yrði miðað við stöðu ríkissjónvarpsins á fjölmiðlamarkaði hreinlega of mikil samþjöppun á auglýsingum. Framboð á auglýsingatímum yrði of lítið. Við erum með eina áskriftarstöð sem rekur nokkrar rásir, þó aðallega eina, og síðan höfum við opna stöð sem rekur hreint auglýsingasjónvarp. Hætta er á því að í dagskrá þessara stöðva yrði ekki nógu mikið af efni sem drægi að sér nægilegt áhorf til að réttlætanlegt væri að framleiða fyrir þær dýrar og miklar auglýsingar.

Ég set líka fyrirvara við hugmyndir um að draga úr kostunarmöguleikum, sérstaklega á innlendri dagskrárgerð. Ég tel ákaflega mikilvægt að sá háttur sem hefur verið hér á undanförnum árum geti áfram verið í gildi, að fyrirtæki og stofnanir geti lagt útsendingu áhugaverðs efnis lið með því að koma að því sem kostunaraðilar og samstarfsaðilar um framleiðslu þess.

Hafandi sagt þetta, virðulegi forseti, vil ég nefna að ríkissjónvarpið hefur gríðarlega mikið forskot á þessum markaði og það hefur beitt þessu forskoti með mismunandi hætti í sinni samkeppni við frjálsu stöðvarnar á undanförnum 22 árum. Það verður að taka tillit til og skapa frjálsum stöðvum á fjölmiðlamarkaði svigrúm svo þær geti staðið af sér það samkeppnisforskot sem ríkissjónvarpið hefur. Sá rammi sem verður að setja ríkissjónvarpinu í þessu samhengi verður að vera mjög strangur hvað varðar öll vinnubrögð og verðlagningu þessara auglýsingatíma.

Auglýsingar birtast einfaldlega þar sem næst til neytenda. Í dag er þessi markaður orðinn mjög þróaður og auglýsingasérfræðingar reikna út hvar áhorfið er, hvaða aldursflokkar horfa, lesa o.s.frv., þannig að hægt sé að ná með eins beinum hætti og mögulegt er til þeirra markhópa sem sóst er eftir.

Í því felst mikil einföldun að hugsa sér að þær 750 millj. sem ríkissjónvarpið hefur í auglýsingatekjur á ári fari hreinlega yfir til frjálsu stöðvanna, yrðu þær teknar algerlega út úr ríkissjónvarpinu. Það er ekki endilega samhengi þar á milli.

Ég held að við getum öll verið sammála um að mjög mikilvægt er að efla rekstur frjálsra fjölmiðla á Íslandi. Það er mjög mikilvægt að horfa til þess hvernig við ætlum að haga, og heimila að hagað verði, eignarhaldi á fjölmiðlum hér á landi í framtíðinni. Við hljótum að leita leiða sem geta dreift þessu eignarhaldi og skapað okkur það umhverfi að hér verði hlutlaus og gagnrýnin umræða um menn og málefni. Í þessu geta frjálsir fjölmiðlar leikið lykilhlutverk í framtíðinni.

Við þurfum því að mínu mati að nálgast þetta mál eftir öðrum leiðum en nefndin sem hefur verið að störfum kýs að gera í þessu tilfelli. Ég held að við þurfum að hugsa þetta þannig að nýta ríkissjónvarpið og ríkisfjölmiðlana sem best sem fjölmiðla, nýta eðlilega þá auglýsingatíma sem þar eru fyrir hendi en á sama tíma nota mögulega hluta af því fjármagni sem þar næst til þess að styðja starfsemi frjálsra stöðva, möguleika þeirra og starfsemi til að efla íslenska dagskrárgerð. Í raun þyrfti að styðja þessa frjálsu fjölmiðla í ljósvakamiðlum til þess að búa til efni sem fær áhorf og fær eftirtekt. Það að fara þessa leið mundi efla stöðvarnar, þær fengju meiri athygli og möguleikar þeirra til tekjuöflunar mundu eflast jafnt á sviði kostunar, aðstoðar og auglýsingasölu.

Ég vil ítreka að á meðan við höfum ákvörðun um og sæmilega breiða fylkingu á bak við það að hér skuli vera öflugir ríkisfjölmiðlar og það mikilvæga hlutverk sem þeir gegna menningarlega og samfélagslega sé eflt getum við að mínu mati ekki klippt á þennan mikilvæga þátt í þeirri starfsemi fjölmiðla, sem er að miðla upplýsingum til almennings í gegnum auglýsingar. Við verðum að nálgast þetta mál með þeim hætti að við sjáum til þess á sama tíma, m.a. með því fjármagni sem fæst í gegnum þetta, að hægt verði að standa við bakið á frjálsum fjölmiðlum og þeim gert kleift að standast það forskot sem ríkisfjölmiðlarnir hafa í þessari samkeppni.