136. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2008.

Ríkisútvarpið ohf.

218. mál
[15:09]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Ríkisútvarp og -sjónvarp á að vera á fjárlögum að mínu mati. Það er langeðlilegasta rekstrarform Ríkisútvarpsins, hvort sem um er að ræða sjónvarpið eða Rás 1 og Rás 2. Þetta fyrirtæki á að vera beint á fjárlögum, það á ekki að vera með nefskatt og ekki á svokölluðum auglýsingamarkaði og það á ekki að láta fyrirtæki kosta þáttagerð.

Víða erlendis eru ríkisreknir fjölmiðlar ekki á auglýsingamarkaði og ég tel nauðsynlegt gagnvart samkeppnisstöðu einkafjölmiðla að þeir séu ekki í samkeppni með þessu sniði. Það er erfitt að vera með einkarekinn fjölmiðil, hvort sem það er útvarp eða sjónvarp, og að þurfa að keppa á auglýsingamarkaði við ríkisstofnun eins og Ríkisútvarpið okkar sem fær 3–4 milljarða kr. í tekjur gegnum nefskatt.

Það er líka ýmislegt sem þarf að varast við Ríkisútvarpið og það eru pólitísk afskipti. Yfir Ríkisútvarpinu er pólitískt kjörin stjórn sem ég tel að þurfi að breyta og koma í veg fyrir bein áhrif pólitíkusa á vinnubrögð Ríkisútvarpsins. Ég hef sjálfur aðeins haft afskipti af því og fundið fyrir að í ákveðnum tilfellum þegar ráðherrar eru óhressir með hvernig fréttamenn ætla að taka á þeim urra þeir aðeins. Þá verða fréttamenn hræddir og þora ekki að halda áfram að vinna fréttir sem upplýsa ýmislegt sem miður hefur farið hjá ráðherrum.

Síðan er það með einkafjölmiðla, einkasjónvarpsstöðvar og einkaútvarpsstöðvar. Þær þurfa auðvitað að vera á eðlilegum rekstrargrundvelli en það er einokun á starfi þeirra. Samkeppnisstofnun ætti auðvitað líka að hugsa um og koma í veg fyrir einokun einkarekinna fjölmiðla. Ég tel að það sé hlutverk Samkeppnisstofnunar að koma í veg fyrir að þeir verði misnotaðir í pólitískum eða öðrum óeðlilegum rekstrarþáttum.

Fjölmiðlafrumvarpið, eða þetta frumvarp þar sem gert er ráð fyrir að auglýsingatími verði takmarkaður á hverjum sólarhring, gengur allt of stutt í átt til þess að tryggja alvöru samkeppni og samkeppnisstöðu einkarekinna fjölmiðla. Þrátt fyrir að hér hafi fyrir þremur, fjórum árum síðan verið mikil andstaða við fjölmiðlafrumvarp er þörf á því að setja lög um fjölmiðla, bæði gagnvart ríkissjónvarpinu svo það sé ekki í samkeppni við einkafjölmiðla og síðast en ekki síst að einkafjölmiðlar hafi ekki einokunaraðstöðu, hvort sem er í útvarpi eða sjónvarpi.

Það hlýtur að vera hægt að búa til eðlilegar og heilbrigðar leikreglur sem allir geta sætt sig við í þessu en auðvitað er ekki hægt að ætlast til að svo sé þegar Ríkisútvarpið er með 3–4 milljarða kr. styrk umfram aðra og keppir svo við einkareknu fjölmiðlana.

Það hlýtur að vera hlutverk Samkeppnisstofnunar að koma í veg fyrir að einhverjir hafi einokun á markaðnum. Ég gef mér að það sé eins og það á að vera, að ekki sé hægt að mynda einokunaraðstöðu eða skapa sér einokunaraðstöðu og fákeppni á markaðnum. Þetta er auðvitað hlutur sem við þurfum að hugsa um og gaumgæfa vandlega að setja um lög og reglur svo allir geti lifað á eðlilegum grundvelli á eðlilegum samkeppnislögum.