136. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2008.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

219. mál
[15:59]
Horfa

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum.

Með frumvarpi þessu eru lagðar til ýmsar breytingar á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Flestar þeirra var einnig að finna í frumvarpi sama efnis sem lagt var fram á Alþingi síðastliðið vor, en hlaut ekki afgreiðslu. Það ástand sem nú ríkir á íslenskum fjármálamarkaði og leikið hefur afkomu margra lífeyrissjóða grátt kallar einnig á tilteknar breytingar á lögunum.

Í fyrsta lagi er lögð til sú meginbreyting að þeim aðilum sem náð hafa 60 ára aldri verði heimilt að taka út séreignarsparnað sinn í einu lagi í stað þess að dreifa greiðslum á sjö ár eins og kveðið er á um í gildandi lögum. Þetta fyrirkomulag, þ.e. sjö ára reglan, hefur sætt talsverðri gagnrýni á undanförnum árum, einkum þar sem um lágar fjárhæðir er að ræða, og í einhverjum tilvikum hafa rétthafar smeygt sér fram hjá gildandi reglum með því að dreifa séreignarsparnaðnum á marga vörsluaðila.

Í öðru lagi er lagt til, með hliðsjón af sífellt hækkandi meðalaldri og bættri heilsu fólks, að ekkert aldurshámark verði á því hvenær einstaklingur getur hafið töku lífeyris, en í gildandi lögum er það hámark bundið við 75 ára aldur.

Í þriðja lagi er í frumvarpinu að finna tillögur um nokkrar breytingar á 36. gr. laganna sem fjallar um fjárfestingarstefnu lífeyrissjóðanna. Þar er meðal annars lagt til að lífeyrissjóðum verði heimilt að fjárfesta fyrir allt að 20% af hreinni eign sinni í verðbréfum sem ekki eru skráð á skipulegum markaði, en í gildandi lögum er umrætt hlutfall 10%. Þessi tvöföldun á hlutfallinu skýrist fyrst og fremst af þeirri stöðu sem nú er uppi á innlendum fjármálamarkaði þar sem framboð á skráðum verðbréfum er afar takmarkað. Hún hefur leitt til þess að einstaka sjóðir hafa jafnvel farið yfir 10% mörkin án nokkurra viðskipta. Gera má ráð fyrir að þetta hlutfall verði tekið til endurskoðunar á ný þegar fjármálamarkaðurinn hefur náð ákveðnu jafnvægi. Að auki eru lagðar til nokkrar aðrar breytingar á 36. gr. sem miða að aukinni áhættudreifingu.

Í fjórða lagi er lagt til að settar verði samræmdar reglur um fjárfestingarstefnu þeirra aðila sem hafa heimild til að taka við séreignarlífeyrissparnaði. Samkvæmt núgildandi lögum er séreignarlífeyrissparnaður í vörslu lífeyrissjóða háður sömu takmörkunum varðandi fjárfestingarstefnu og samtryggingarlífeyrissjóðir á meðan aðrir vörsluaðilar hafa ótakmarkað frelsi til að móta fjárfestingarstefnu sína, jafnframt því að vera óháðir eftirliti Fjármálaeftirlitsins hvað hana varðar. Þetta ójafnræði milli vörsluaðila sem bjóða upp á sambærilega þjónustu er talið miður heppilegt. Auk þess eru nú að koma í ljós ýmis dæmi þess að hið ótakmarkaða frelsi til fjárfestinga sem einstakir vörsluaðilar hafa notið hafi leitt til óvarlegra fjárfestinga með tilheyrandi skaða fyrir eigendur séreignarsparnaðarins. Því er lagt til, bæði í varúðarskyni og til að gæta samræmis, að allir vörsluaðilar séreignarlífeyrissparnaðar verði bundnir tilteknum lágmarksskilyrðum varðandi fjárfestingar. Það þýðir að fjárfestingarammi lífeyrissjóða gagnvart séreignarsparnaði verður rýmri frá því sem er í gildandi lögum samhliða því að frelsi annarra vörsluaðila séreignarlífeyrissparnaðar verður takmarkað.

Þá eru lagðar til nokkrar breytingar til að auka sveigjanleika við ráðstöfun lífeyrisréttinda og greiðslu ellilífeyris, jafnframt því sem kröfur til þekkingar stjórnarmanna lífeyrissjóða auk þeirra sem sinna eignastýringu verðbréfasafna lífeyrissjóða eru hertar, auk nokkurra smærri breytinga.

Að lokum er í frumvarpinu að finna bráðabirgðaákvæði þess efnis að þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 39. gr. laganna skuli lífeyrissjóðum vera heimilt að hafa allt að 15% neikvæðan mun á milli eignarliða og framtíðarskuldbindinga lífeyris miðað við tryggingafræðilega athugun fyrir árið 2008, án þess að þeim sé skylt að gera breytingar á samþykktum sjóðsins. Samkvæmt gildandi lögum eru mörkin 10%. Þetta þýðir að þeir sjóðir sem eru reknir innan við 15% samkvæmt tryggingafræðilegu mati munu ekki þurfa að skerða lífeyrisréttindi á næsta ári lagalega séð.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.