136. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2008.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

219. mál
[16:03]
Horfa

Ellert B. Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Ég sé ástæðu til að standa upp og taka til máls við framlagningu þessa frumvarps sem snýr skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum.

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um frumvarpið en stend upp fyrst og fremst til þess að lýsa ánægju minni með þau spor sem hér eru stigin og þær tillögur sem hér eru gerðar. Þær eru fljótt á litið og eftir þó nokkra athugun af minni hálfu allar í rétta átt og jafnvel, segi ég núna, þó fyrr hefði verið, að til slíkra aðgerða væri gripið.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir breytingum í fjórum meginatriðum. Í fyrsta lagi er sú meginbreyting gerð að þeim sem hafa náð 60 ára aldri er heimilt að taka út séreignarsparnað í einu lagi í stað þess að þurfa að dreifa greiðslum yfir lengri tíma.

Í öðru lagi eru ekki lengur aldurshámark á því hvenær einstaklingur getur hafið töku lífeyris en fram að þessu og í núgildandi lögum er það bundið við 75 ára aldur

Í þriðja lagi er gert ráð fyrir því að lífeyrissjóðum verði heimilt að fjárfesta í hærra hlutfalli en hingað til enda er við gerbreyttar aðstæður í þjóðfélaginu nauðsynlegt að gera þessa breytingu, að breyta hlutfallinu úr 10 í 20%, vegna þess að nánast engin viðskipti fara fram á þessum vettvangi sem hefur líka leitt til þess að þessi hlutföll segja lítið sem ekkert.

Í fjórða og síðasta lagi er gert ráð fyrir því að settar verði samræmdar reglur um fjárfestingarstefnu þeirra aðila sem hafa heimild til að taka við séreignarlífeyrissparnaði. Þetta er kannski ögn óljósara atriði en er að mínu mati líka spor í rétta átt.

Ég vildi kveðja mér hljóðs strax við 1. umr. til að lýsa yfir ánægju minni með frumvarpið og ég tel afar brýnt að það fái afgreiðslu fyrir áramótin.