136. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2008.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

219. mál
[16:23]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breyting á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Hér eru lagðar til nokkrar breytingar sem á margan hátt eru skynsamlegar. Ég ætla ekki að fara neitt sérstaklega ofan í þær nema að þar er sett inn að samræmd ákvæði skuli vera um fjárfestingar séreignarsparnaðar hvort sem hann er hjá lífeyrissjóði eða öðrum aðilum. Þetta er af hinu góða. Reyndar er víkkun á ákvæðum gagnvart lífeyrissjóðunum vegna þess ástands sem er á verðbréfamarkaði innan lands en jafnframt stór þrenging á því sem er hjá öðrum en lífeyrissjóðunum sem eru vörsluaðilar skyldusparnaðar.

En ég ætla fyrst og fremst að tala um ákvæði til bráðabirgða um 15% mun á milli eigna og framtíðarskuldbindinga lífeyrissjóða í staðinn fyrir 10%. Á sínum tíma voru þessi 10% valin þannig að menn ætluðu ekki að fara að hreyfa það á hverju ári fram og til baka þó að munurinn yrði kannski 2–3% eða 4%. En þetta er mjög mikilvægt upp á það að ekki sé verið að velta skuldbindingum yfir á framtíðargreiðendur sjóðanna þannig að sjóðirnir greiði alltaf út það sem þeir geta raunverulega greitt. Hér er verið að víkka þetta út þannig að í rauninni er verið að velta ákveðnum vanda yfir á framtíðarskuldbindingar.

Það er dálítið varasamt. Það er reyndar mjög varasamt, frú forseti, vegna þess að það gerir að verkum að sjóðirnir munu borga of mikinn lífeyri þetta eina ár sem um ræðir, 2010, í stað þess að taka strax á vandanum og skerða lífeyri ef þarf vegna taps á hruni bankanna.

Það gerir það að verkum að einhvern tíma seinna þarf hugsanlega að skerða lífeyrinn þeim mun meira vegna þess arna. Þetta vil ég að menn skoði mjög nákvæmlega og fari mjög varlega í svona breytingar því að við viljum ekki velta núverandi vanda yfir á börnin okkar í neinu tilliti, hvorki hér né annars staðar. Það er mjög mikilvægt að þjóðin öll taki á þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir nú þegar og bregðist hratt við. Það á jafnt við um þetta frumvarp og fjárlögin sem eru líka til umræðu þessa dagana í þinginu.