136. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2008.

tryggingagjald.

220. mál
[16:32]
Horfa

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum.

Með frumvarpi þessu er lagt til að ákvæði laganna er kveður á um að Icepro skuli fá allt að 0,001% af tryggingagjaldsstofni, falli brott. Breyting þessi er fyrst og fremst lögð fram til einföldunar á framkvæmd. Tryggingagjaldið er talsvert sveiflukenndur gjaldstofn og því ekki heppilegt að fjármagna reglubundin útgjöld með honum. Í staðinn fyrir þessa hlutdeild í tekjustofninum mun verkefnið fá beina fjárveitingu úr ríkissjóði. Þannig stendur ekki til að draga úr fjárframlögum til Icepros þótt mörkunin sé afnumin, heldur er tilgangurinn eingöngu að breyta aðferðinni.

Frú forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.