136. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2008.

tollalög.

193. mál
[16:38]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta mál en vísa til þess að þær kerfisbreytingar sem hér er verið að ráðast í hafa fengið stuðning frá Tollvarðafélagi Íslands sem sendi fulltrúa á fund efnahags- og skattanefndar þegar málið var tekið þar til skoðunar.

Meðal þess sem fram kom í máli formanns Tollvarðafélagsins var sú áhersla að þessar breytingar yrðu ekki til þess að rýra gæði tolleftirlitsins á landsbyggðinni. Reyndar taldi hann að svo yrði ekki, hann taldi þvert á móti að þessar kerfisbreytingar yrðu til þess að efla tollþjónustuna.

Ég vil engu að síður gera grein fyrir því að ég tek undir þau sjónarmið sem komu fram í máli hans og eins að þetta leiði ekki til mannfækkunar í tolleftirlitinu þegar á heildina er litið. Þetta eru þeir fyrirvarar sem við hv. þm. Katrín Jakobsdóttir settum við frumvarpið í umræðu um málið í efnahags- og skattanefnd þingsins.