136. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2008.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. og virðisaukaskattur.

175. mál
[16:43]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Við 1. umr. og jafnframt 2. umr. kom fram að þetta er ekki svo einfalt að þetta sé félagslegur styrkur til bílaumboða. Nokkuð margir hafa tekið ákvörðun um að taka erlend lán til að fjármagna bílakaup. Slík lán voru í boði og þeim mikið haldið að fólki. Vegna þeirrar stöðu sem er á gjaldeyrismarkaði hafa menn lent í því að erlendu lánin hafa hækkað mjög mikið og jafnframt hafa bifreiðarnar orðið illseljanlegar í kjölfar bankahrunsins og líka vegna skorts á fjármögnun innan lands og eftirspurn sem og vegna hækkunar á bensínverði. Ýmislegt lagðist á eitt.

Þetta frumvarp er flutt til þess að losa fólk sem skuldar erlend lán með veði í bílum undan þeirri klemmu sem felst í því að það keypti kannski bifreið á 5 millj., jeppa eða eitthvað slíkt, og skuldar núna 10 en jeppinn er illseljanlegur. Það verður losað úr þessari klemmu og gert því kleift að selja bílinn.

Það eru jafnframt fleiri fletir á þessu máli og þeir eru nefnilega furðu margir. Bifreiðaflotinn sem menn vilja losna við eldist mjög hratt og afskrifast og verður verðlaus á ekki mörgum árum, sérstaklega ef hann er lítið notaður. Til þess að koma honum í verð var ákveðið að endurgreiða þann virðisaukaskatt sem menn eru búnir að borga, með afföllum reyndar, afskriftum. Svo var líka litið á þetta sem tækifæri til að afla gjaldeyris sem þjóðarbúið þarf mjög nauðsynlega á að halda þessa dagana.