136. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2008.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. og virðisaukaskattur.

175. mál
[16:46]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég lít þannig á að þessi endurgreiðsla ætti í rauninni alltaf að vera til staðar. Hún er sjálfsögð. Mér finnst að skattkerfi eigi ekki að stýra hegðun fólks. Því finnst mér að maður sem flytur bíl til landsins og borgar af honum háa skatta, innflutningsskatta, eigi að fá þá endurgreidda þegar hann flytur af landi brott svo ekki sé verið að loka bílana inni í landinu eins og núverandi reglur virka. Ég hefði talið sjálfsagt að menn fengju skattinn endurgreiddan og þá með þeim afföllum sem eðlileg eru miðað við verðmæti bílsins.

Svo varðandi það að þetta sé ekki fyrir fátækt fólk þá held ég að það hafi ekki verið skilyrði fyrir lánveitingum eða gengistryggðum lánum til fólks að það væri með háar tekjur, því miður. Ég er ekki endilega viss um að það sé hátekjufólk sem hafi keypt þessa bíla og skuldar þessi óbærilegu lán sem hafa hækkað mjög mikið eftir að gengið féll. Ég get alveg ímyndað mér að einhverjir í þeim hópi séu með meðaltekjur og jafnvel þar fyrir neðan og lenda í því að verða fátækir vegna þess að lánin hækka en bílarnir ekki. (Gripið fram í: Þeir eru orðnir fátækir.) Já.