136. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2008.

stjórn fiskveiða.

207. mál
[16:51]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Þetta frumvarp er á margan hátt ágætt, a.m.k. fyrri hluti þess sem snýr að kvóta til áframeldis í fiskeldi. Áframeldi á fiski er mjög vandmeðfarið, þ.e. að veiða smáfisk, jafnvel mjög smáan, alveg niður í seyði og ætla að rækta hann upp í stóran eldisfisk. En það er sjálfsagt að fylgjast með og taka þátt í þessu og 500 tonn af kvóta er ekki mikið til að halda þessu áfram. Maður treystir því og trúir að þetta verði gert með þeim hætti að hringinn í kringum landið njóti menn sama aðgangs að veiðiheimildum til þess að þróa þetta áfram. Hins vegar eru brögð að því, eins og sjá má á myndum í blöðum og í fjölmiðlum, að enn er verið að taka heldur stóran fisk í áframeldi og má kannski segja að það sé helsta hættan að menn misnoti þær aðstæður sem þeir hafa. Ég sá myndir úr fiskeldi, ég held úr Stöðvarfirði frekar en Berufirði, þar sem einmitt var verið að veiða í gildrur stóran fisk til áframeldis. Þetta á við fyrri hluta frumvarpsins.

Síðan er það gildistakan á því hámarki sem á að vera og má vera kvótaeign einstaklinga, fyrirtækja, lögráðamanna á þeirri kennitölu, hvað þeir mega eiga mikinn kvóta í það heila talið í smábátakerfinu. Þar er verið að fresta um þrjú ár, frá 1. september 2009 til 1. september 2012, gildistöku laga sem hafa áður verið sett. Það er út af fyrir sig ágætt að menn séu að stoppa það að þetta fari á fáar hendur en það verður samt að vekja athygli á því að ef menn eru í smábátaútgerð mega þeir ekki eiga meira en 5% í þorskígildum talið í kvóta en í stóra kerfinu mega einstakar útgerðir eiga allt að 12% af úthlutuðum kvóta. Þetta er auðvitað mjög mikil mismunun og óréttlátt eins og nánast allt sem viðkemur íslenska fiskveiðistjórnarkerfinu hvort sem verið er að tala um stóra kerfið eða litla kerfið og þær leikreglur sem unnið er eftir, það er allt með þeim hætti að það er ekki nokkurri ríkisstjórn eða nokkrum stjórnmálaflokki stætt á því að standa vörð um og verja slíkt fiskveiðistjórnarkerfi. Það er nóg að minna á óréttlætið í því hvernig sjávarbyggðir hringinn í kringum landið hafa farið út úr því, hvernig einstaklingar hafa farið út úr þessu fiskveiðistjórnarkerfi. Það er stanslaust verið að mismuna. Menn fengu auðlindina gefins í upphafi og hafa fengið að leigja hana, selja hana og veðsetja. Þetta vita allir sem fylgjast með þessum málum og það er gersamlega óþolandi að búa áfram við þetta, fyrir svo utan það sem er kannski það alvarlegasta við kerfið í dag sem er að það er verið að brjóta mannréttindi á fólki. Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna hefur bent á það að við höfum ekki staðið okkur í stykkinu hvað varðar mannréttindi og brjótum þar sérstaklega á tveimur mönnum vestur á fjörðum sem hafa fengið þann úrskurð frá mannréttindanefnd að á þeim hafi verið brotin mannréttindi.

Það er líka verið að brjóta mannréttindi á fleirum en þessum tveimur sjómönnum með mismunun í úthlutun. Sumir fá, aðrir ekki. Þeir sem voru í útgerð á árunum 1981–1983 fengu ókeypis úthlutaðan kvóta fyrir árið 1984 og hafa síðan átt kvótann, þeir gátu reyndar ekki byrjað að leigja hann og selja eða veðsetja fyrr en eftir 1991 þegar frjálsa framsalið var sett á. Þetta þarf auðvitað að laga og við í Frjálslynda flokknum höfum lagt til að allar veiðiheimildir yrðu innkallaðar og auðlindasjóður yrði látinn leigja út allar veiðiheimildirnar. Við munum væntanlega tala fyrir því frumvarpi innan skamms. Það kemur manni reyndar spánskt fyrir sjónir þegar þarf að afgreiða frumvörp eins og það frumvarp sem nú er til umræðu, með leyfi og afbrigðum til að koma því á dagskrá, að þá skuli ekki vera hægt að ræða frumvarp eins og frumvarp Frjálslynda flokksins um það að innkalla allar veiðiheimildir á Íslandsmiðum í svokallaðan auðlindasjóð sem leigir hann út aftur. En það er með þetta eins og annað, hér í þinginu tíðkast ótrúleg vinnubrögð þessa dagana, þingið er meira og minna aðgerðalaust en svo koma svona skorpur þar sem helst þarf að keyra mál í gegn á nokkrum klukkutímum vegna þess að það er verið að flýta sér og gera ýmsa hluti mjög hroðvirknislega. Þetta á við flestar þær lagabreytingar sem gerðar hafa verið nýlega, bæði neyðarlögin og önnur lög sem sett hafa verið, gjaldeyrishaftalög, gjaldeyrisskömmtunarlög og ýmislegt annað þessa síðustu daga, lögin um Icesave-reikningana og annað í þeim dúr. Við stöndum frammi fyrir því að þingið er hálflamað og svo koma stuttir sprettir þar sem á að keyra allt í gegn. Ég sé t.d. ekki betur en einungis séu fimm þingmenn staddir í þingsalnum núna, fjórir þingmenn og einn ráðherra. Það er allt og sumt. Þetta er áhugi hjá þingmönnum fyrir þingstörfum. Sumir flokkar sjá ekki sóma sinn í því að hafa neina fulltrúa til að ræða þau alvarlegu mál sem eru þó fyrir þinginu.

Ég áskil mér þann rétt að koma jafnvel með breytingartillögu varðandi þetta frumvarp, að það verði með sömu prósentutölu, þ.e. í stóra kerfinu, að engin útgerð eigi meira en 5% í heildarþorskígildum talið og ég held að það væri ágætt til að byrja með þangað til við innköllum allar veiðiheimildirnar á Íslandsmiðum.