136. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2008.

stjórn fiskveiða.

207. mál
[16:58]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég kem upp til þess að lýsa því yfir að mér finnst að það sé rétt að framlengja það fyrirkomulag sem hefur verið í sambandi við áframeldi, 500 lestum af óslægðum þorski er úthlutað til tilrauna með áframeldi. Áframeldið hefur gengið svona þokkalega og áreiðanlega fengist út úr því einhver reynsla sem nýtist okkur áfram inn í aleldið sem ég geri mér vonir um að muni líta dagsins ljós í meira mæli á Íslandi. En kannski hæstv. sjávarútvegsráðherra gæti komið eitthvað inn á það hvernig hann sér fyrir sér að það muni geta þróast. Hann hefur sjálfur tekið undir að það gæti komið til greina að ríkið kæmi inn í rekstur eða uppbyggingu á seiðaeldisstöð eða -stöðvum, þá með útgerðinni sem hefur fram til þessa lagt í gríðarlegan kostnað í sambandi við tilraunir og þróun þorskeldis hér á landi. Mér finnst að það sé kominn tími til þess að einhverjar ákvarðanir verði teknar í þessum efnum og málum og þeim ekki bara ýtt á undan sér eins og hefur verið. Það væri líka forvitnilegt að vita hvort umtöluð nefnd sem hæstv. ráðherra skipaði og hefur verið að störfum og var um það bil að ljúka störfum, heyrðist mér þegar við ræddum þorskeldi utan dagskrár fyrir nokkrum vikum, hvort sú skýrsla er komin fram og hvað þar er lagt til.

Þetta er það sem ég vildi segja við þetta tækifæri. Hins vegar er það þannig, hæstv. forseti, að mál hafa komið ansi hratt inn á dagskrá og til umræðu og því ekki alltaf tækifæri til að kynna sér þau til hlítar fyrir 1. umr. en vonandi fáum við frekari upplýsingar um þetta mál í hv. nefnd.

Hvað varðar hinn þáttinn sem hér um ræðir í þessu ágæta frumvarpi þá sýnist mér ekki ástæða til að gera athugasemdir við hann, a.m.k. ekki við fyrstu sýn og því ég reikna með að styðja frumvarpið en óska eftir frekari upplýsingum frá hæstv. ráðherra.