136. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2008.

stjórn fiskveiða.

207. mál
[17:05]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér er það ljúft að biðjast afsökunar ef ég hef raskað hugarró hv. þingmanns og skilið hann eftir í þeirri trú að hann væri að lýsa yfir stuðningi við mig sérstaklega og fiskveiðistjórnarkerfið. Ég átti ekki von á því í sjálfu sér, enda brá hann ekki þeim vana sínum að nota ferðina hér upp í ræðustól til þess að skamma aðeins kvótakerfið. Er gott að hann heldur í heiðri ákveðnar hefðir sem hann hefur tileinkað sér í þinginu, að koma aldrei hér upp öðruvísi en aðeins að skamma kvótakerfið.

Að öðru leyti var ég eingöngu að vekja athygli á því að viðbrögð hv. þingmanns við þessu frumvarpi mínu voru óvenjujákvæð og það þóttu mér talsverð söguleg tíðindi. Ég vildi bara ítreka það.