136. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2008.

stjórn fiskveiða.

207. mál
[17:06]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Já, það er auðvitað alltaf gott ef menn ná samstöðu um eitthvað en ég hef ekki álitið að við hæstv. sjávarútvegsráðherra Einar K. Guðfinnsson ættum samleið. Þó eru til snertifletir þar sem við getum hugsanlega náð saman, eins og ef hann hefur hug og þor og kjark til þess að gefa út kvóta eða veiðileyfi á stórhveli og hrefnu. Þá væri hægt að taka undir og vera sammála hæstv. sjávarútvegsráðherra.

En tillögu mína um það að stóra kerfið yrði með sama prósentuhluta og smábátakerfið, þ.e. að enginn mætti eiga meira en 5% í heildarkvóta, hvorki fyrirtæki né einstaklingur, tók hann ekkert undir með mér. Það er ótrúlegt að menn treysti sér til að segja: Ef þú átt trillu máttu ekki eiga meira en 5% af heildarkvóta en ef þú átt stórfyrirtæki máttu eiga 12% heildarkvóta í því kerfi, svokallaða stóra kerfi. Þetta er dálítið skondið, að menn treysti sér til að verja svona misrétti en þetta er ekki eina misréttið í fiskveiðistjórnarkerfinu eins og ég kom inn á áðan. Það er allt fullt af ólögum og órétti, mannréttindabrotum og öðru í þessu fiskveiðistjórnarkerfi — fyrir utan algjört árangursleysi. Skuldirnar eru langt upp fyrir skorstein á öllum skipum og öllum veiðiheimildum. Kvótinn er verðlaus í dag, verð á kvóta hefur hrunið og sjálfsagt þarf veðköll inn í öll íslensk sjávarútvegsfyrirtæki á næstu vikum. Fyrir utan það hefur ástand margra fiskstofna ekki verið í lagi.