136. löggjafarþing — 55. fundur,  12. des. 2008.

hugsanleg lögsókn gegn Bretum – ummæli þingmanns.

[11:00]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vil gjarnan fá að spyrja hv. þm. Jón Gunnarsson út í ummæli sem hann viðhafði í fjölmiðlum í gær þar sem hann talaði í hálfkveðnum vísum. Þar segir hv. þingmaður að skilanefnd og Fjármálaeftirlitið hafi gert mistök og að til þess að endurvekja trúverðugleika og til þess að viðhalda trausti almennings ættu forustumenn ríkisstjórnarinnar að gera þær breytingar sem þarf að gera.

Svo er tilvitnun í orð hv. þingmanns, með leyfi forseta:

„Þetta gæti átt við um Seðlabankann, Fjármálaeftirlitið og skilanefndir og klárlega inn í ríkisstjórnina.“ — Klárlega inn í ríkisstjórnina.

Síðan þegar spurt er um nöfn segir hv. þingmaður:

„Það ætti að vera auðlesið.“

Ég vil gjarnan að hv. þingmaður aðstoði okkur við að lesa í þessa stöðu.

Það er alveg ljóst miðað við þessi ummæli að það bullar og sýður innan Sjálfstæðisflokksins, bullar og sýður þar. Þegar maður skoðar hvað almenningur segir — (SKK: Hver er vinsælastur í Framsóknarflokknum?) (Iðnrh.: Jónína Ben.) Hvernig er hægt að meta almenning? Það er hægt að skoða skoðanakannanir.

Nýjasta skoðanakönnunin sýnir að hæstv. fjármálaráðherra Árni M. Mathiesen nýtur mjög lítils trausts, 77% treysta honum lítið (Gripið fram í: En framsóknarmönnum?) og 24% sjálfstæðismanna treysta honum lítið. (Gripið fram í.)

Svo skulum við skoða Gallup-kannanir. (Gripið fram í.) Í síðustu Gallup-könnun kom í ljós að — (Forseti hringir.) Það er greinilega voða viðkvæmt að tala um þetta, virðulegur forseti. 81% svarenda var óánægt með Árna M. Mathiesen, hæstv. fjármálaráðherra, og 70% voru óánægð með hæstv. dóms- og kirkjumálaráðherra, Björn Bjarnason. (Gripið fram í.) Þetta eru langóvinsælustu ráðherrar ríkisstjórnarinnar, en þeir óvinsælustu hjá Samfylkingunni eru hæstv. umhverfisráðherra Þórunn Sveinbjarnardóttir og Björgvin G. Sigurðsson, hæstv. viðskiptaráðherra. (Gripið fram í.) (Gripið fram í.) Þannig að ég spyr: Hvernig á að skilja þessa yfirlýsingu? [Hlátrasköll í þingsal.] (Forseti hringir.)

(Forseti (StB): Forseti vill biðja hv. þingmenn um að gefa þingmanninum tækifæri til þess að ljúka máli sínu.)

Virðulegur forseti. Það er gaman að því hvað þingmenn geta hlegið að því þegar verið er að lesa áfellisdóma þjóðarinnar yfir hæstv. ráðherrum, (Gripið fram í.) það er mjög merkilegt að þingmenn treysti sér til þess. (Gripið fram í.)

Ég spyr hv. þingmann: Þýðir þessi yfirlýsing að hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. dómsmálaráðherra eigi að víkja fyrst þeir (Forseti hringir.) eru allra óvinsælustu ráðherrarnir í ríkisstjórn og það sýnir almenningur (Forseti hringir.) sem hv. þingmaður vill sjá meira traust hjá? (Iðnrh.: Á þá Framsóknarflokkurinn …?)

(Forseti (StB): Forseti biður hv. þingmenn og ráðherra að gefa hljóð.)