136. löggjafarþing — 55. fundur,  12. des. 2008.

umgengni um nytjastofna sjávar.

120. mál
[11:51]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Út af þessu síðasta er það auðvitað þannig að seljandinn setur lágmarksverðið þannig að það er ekki spurning um erlenda eða innlenda aðila í þessu sambandi.

Það er hins vegar þannig, virðulegi forseti, að frumvarpið sem hér liggur fyrir hefur einn yfirlýstan tilgang og hann kemur mjög vel fram í tillögugreininni sjálfri. Hann er sá að reyna að tryggja að fiskvinnslan sem ekki hefur haft aðgang fram á þennan tíma til að bjóða í fiskinn hafi hann. Núna erum við að setja leikreglur sem gerir það að verkum að íslensk fiskvinnsla getur boðið í þennan fisk, þau 56.000 tonn sem hefur verið vitnað til að hafi farið óunnin úr landi. Hérna er opnað á leiðina fyrir íslenska fiskvinnslu til að gera tilboð í aflann og eftir atvikum ná aflanum til sín.

Það er auðvitað rangt sem hv. þingmaður segir, að hér sé með einhverjum hætti opnað á heimildir til að flytja út. Það er verið að þrengja þessar heimildir til að flytja út. Í dag eru þessar heimildir býsna opnar, það er alveg rétt hjá hv. þingmanni, og það var þannig að það fyrirkomulag sem var hér við lýði árum saman gerði það ekki að verkum að það drægi úr þessum útflutningi á óunnum ísuðum fiski. Þess vegna þurftum við að leita nýrra leiða, ég vísaði að vísu til Samkeppniseftirlitsins, það var að mínu mati samt ekki eini kjarni málsins. Það var að vísu ábending sem við hlutum að horfa á, en stóra málið var að það fyrirkomulag sem við höfðum dugði ekki og þess vegna settust fulltrúar útgerðarmanna og fiskverkenda niður ásamt fleirum og reyndu að hugsa upp leið sem gæti gert það að verkum að við auðvelduðum fiskvinnslunni aðgengi að fiskinum og það er verið að gera það með þessu frumvarpi. Það er verið að tryggja miklu betur en áður hagsmuni íslenskrar fiskvinnslu, enda er það markmiðið með þessu lagafrumvarpi og það mun verða raunin verði það samþykkt.