136. löggjafarþing — 55. fundur,  12. des. 2008.

umgengni um nytjastofna sjávar.

120. mál
[11:53]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta sjútv.- og landbn. (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra talar enn eins og efnahagshrunið hafi ekki komið fram. Ég er þeirrar skoðunar að hann átti sig ekki á því miðað við þau orð sem hér eru látin falla. Ég er að tala um það, fyrst og síðast, að tryggja að allur þessi fiskur verði til bráðabirgða unninn á Íslandi til að koma í veg fyrir það atvinnuleysi sem þegar er orðið og það sem blasir við. Ég er að tala um róttækar aðgerðir.

Ég fagna því að fiskur sé settur á uppboðsmarkað og annað slíkt. Ég skil hins vegar ekki af hverju lágmarksverðið er sett á. Ég skil það ekki. Þess vegna er tillaga hv. þm. Grétars Mars Jónssonar gagnleg að því leyti.

Ég verð að mótmæla því líka, hæstv. ráðherra, að nokkuð liggi fyrir um það að minna verði flutt út af óunnum fiski en er í dag. Það er hinn frómi tilgangur frumvarpsins en það hefur ekki verið kannað hvort slíkt muni gerast og það liggur ekkert fyrir um það.

Það að allir hafi jafnan aðgang að fiski er hið besta mál, en brýnni hagsmunir eru það í dag í íslensku þjóðfélagi að sú atvinna sem felst í öllum þeim tonnum sem flutt eru út verði unnin á Íslandi í þeirri stöðu sem nú er.