136. löggjafarþing — 55. fundur,  12. des. 2008.

umgengni um nytjastofna sjávar.

120. mál
[13:30]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti Við ræðum um útflutning á óunnum afla og ég þakka hv. þingmönnum fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram og tek undir að okkur er auðvitað verulegt umhugsunarefni að yfir 50 þúsund tonn fari úr landinu óunnin. Þetta mál er fram komið til að bæta aðgengi fiskvinnslunnar að þeim fiski sem fer úr landinu. Sú niðurstaða sem lögð hefur verið fram og fjallað var um í hv. landbúnaðar- og sjávarútvegsnefnd er sáttaleið milli ólíkra sjónarmiða í þeim málum. Hún er til þess sett fram að auka það hlutfall af fiski sem unninn er í landinu og blandast engum hugur um hversu mikilvægt það er nú.

Það er rétt að sú leið sem lagt er til að verði farin var lögð til áður en að hruninu kom í haust og var umræða um málið þess vegna. Niðurstaðan í tillöguflutningnum var vegna þess mjög svo erfiða atvinnuástands sem við munum standa frammi fyrir á næstunni.

Það má taka undir ýmislegt af því sem komið hefur fram í málflutningi ýmissa fulltrúa stjórnarandstöðunnar í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd, að það er brýnna nú en nokkru sinni fyrr að við sköpum sem mesta atvinnu í landinu vegna þess vaxandi atvinnuleysis sem við erum að glíma við. En það er þó allt of langt gengið sem lagt er til af fulltrúa Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að taka alfarið fyrir útflutning á óunnum fiski vegna þess að það verður auðvitað að vera forsenda fyrir því að við vinnum aflann hér, að það sé ekki bara atvinnuskapandi heldur líka hagkvæmt og skynsamlegt. Því er auðvitað ekki til að dreifa í öllum tilfellum og þess vegna óeðlilegt að banna þetta með öllu.

Sú tillaga sem fulltrúi Frjálslynda flokksins í nefndinni, hv. þm. Grétar Mar Jónsson, flytur hér um lágmarksverð á fiski og að setja skorður við því hvaða lágmarksverð sé hægt að setja á fisk miðað við markaðsverð á hverjum tíma held ég að sé miklu nær lagi eða mundi skerpa eitthvað á þessum ákvæðum í lögunum. Ég held að það sé alger óþarfi að lögþvinga slík skilyrði eins og hv. þingmaður leggur til með breytingartillögum sínum. Það er algerlega ótvírætt að það er krafa til þeirra sem koma með afla að hann sé unninn hér ef það er hagkvæmt og arðbært, til þess verði ætlast að það frumvarp sem hér verður að lögum leiði til þess að unninn verði umtalsvert meiri afli í landinu en fer út úr því núna. Ég held þess vegna að við eigum að samþykkja það frumvarp sem liggur fyrir og við höfum fyrir okkar leyti samþykkt í nefndinni og treysta því að sú breyting verði á sem til er ætlast með málinu.

Það er auðvitað ekki hægt að útiloka að við höfum ekki árangur sem erfiði. Það er rétt hjá hv. 7. þm. Suðurkjördæmis, fulltrúa Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í landbúnaðar- og sjávarútvegsnefnd, að frumvarpið tryggir ekki að hér verði meiri afli unninn en verið hefur. Ég held hins vegar að það sé deginum ljósara að nái menn ekki markmiðum sínum með þessu frumvarpi, að vinna meiri afla í landinu komi það í ljós tiltölulega mjög fljótt. Ef svo ólíklega vill til, sem ég trúi raunar ekki, að ekki verði tekið tillit til atvinnuástandsins og heimildir þessa frumvarps nýttar til að vinna meiri afla í landinu, er alveg vandalaust fyrir Alþingi að stíga lengra og fastar í þessa átt með enn frekari breytingum á löggjöfinni til að tryggja að markmiðinu verði náð. En ég held að það sé eðlilegt að við á löggjafarsamkomunni ástundum meðalhóf og lögleiðum það samkomulag sem náðst hefur milli ólíkra sjónarmiða og treystum því að það verði til að unninn verði verulega meiri afli á Íslandi en verið hefur. Ef það verða síðan lyktir máls þegar kemur fram á árið 2009 og við okkur blasa vaxandi verkefni á sviði atvinnumála hefur Alþingi sýnt það á þessum haustdögum að það getur ef þarf, ef ástandið í samfélaginu er þannig að það kalli á það, afgreitt hratt og örugglega frumvörp til laga á Alþingi um breytingar til að mæta neyðarástandi í landinu. Ég held að í því ljósi og vegna þeirrar samfélagslegu kröfu sem verður á útgerðinni um að taka þátt í því mikilvæga verkefni á næstu mánuðum og missirum að skapa aukna atvinnu í landinu fyrir þau störf sem við erum að missa, að sá leiðangur sem hér er lagt upp með hljóti að vera fullnægjandi og okkur muni takast að ná þessu ætlunarverki okkar.