136. löggjafarþing — 55. fundur,  12. des. 2008.

umgengni um nytjastofna sjávar.

120. mál
[13:36]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Herra forseti. Ég tel að ég sé eini þingmaðurinn, alla vega sem ég veit um, sem hefur staðið í því að bjóða í fisk samkvæmt þessum reglum eða ég var örugglega (Gripið fram í.) ein af þeim fyrstu. Þegar fyrst voru settar reglur um að tilkynna ætti um fisk sem flytja ætti til Fiskistofu þannig að fiskkaupendur gætu haft beint samband við útflytjendurna og boðið í fiskinn veit ég að ég hringdi þó nokkuð mörg símtöl og sendi marga tölvupósta. Það voru mjög athyglisverð samtöl sem ég átti við útflytjendurna. Stundum þurfti ég að hafna símtölunum því að það var skakað svolítið hátt á mig. Í öðrum tilvikum var hreinlega skellt á mig og ég veit um alla vega eitt tilvik þar sem einn mjög reiður útgerðarmaður kom inn í fiskvinnsluna sem ég vann í og skammaði yfirmann minn fyrir að vera með svona freka manneskju sem taldi að hún gæti sagt eitthvað um hvað gera ætti við fiskinn. Þar var ekkert rætt um verðið.

Mér telst til varðandi þessar breytingar á lögum um umgengni um nytjastofna sjávar að það sé í þriðja skiptið sem þau lög sem verið er að leggja til núna eru lagfærð. Ég fagna mjög að verið sé að taka svo skýrt á að öllum afla sem íslensk skip veiða úr stofnum sem að hluta eða öllu leyti haldast í efnahagslögsögu Íslands skal landað innan lands og hann veginn í innlendri höfn. Það er mjög skýrt. Ég vonast sannarlega til þess að þar sé horft til þess að það er ekki bara skrokkurinn á fiskinum sem landað er, þarna sé líka verið að tala um slóg og annað sem fylgir fiskinum. Því sé öllu landað innan lands, það vegið eða tekið inn í innlenda höfn. Ég tel það vera skref í rétta átt.

Þetta er, eins og ég nefndi áðan, í þriðja skiptið sem þessi lög eru lagfærð, ef mér telst rétt til. En ég tek undir álit 1. minni hluta varðandi að það þarf að taka mjög skýrt fram að lágmarksverðið standi raunverulega og menn setji ekki rangt verð því að það var eitt af því sem ég þurfti að reyna þegar ég reyndi að bjóða í fiskinn. Við fengum send gögn þegar við óskuðum eftir því hvað væri verið að selja fiskinn á og verðið sem við fengum var fyrir stærsta og dýrasta fiskinn. Okkur var sagt að það væri verðið sem við gætum borgað fyrir allan aflann.

Ég get að sjálfsögðu ekki tekið undir breytingartillögu um að það verði algerlega óheimilt að flytja út óunninn afla til löndunar og sölu á fiskmarkaði erlendis. Þar fáum við enn á ný að sjá svokallaða einangrunarstefnu hjá Vinstri grænum þar sem þeir virðast vilja hafa sem allra minnst samskipti við aðrar þjóðir. Það mundi skaða íslenska hagsmuni alveg geysilega og við sjáum hvað það skiptir miklu máli að eiga í góðum samskiptum við aðrar þjóðir, alla vega hluti af þjóðinni. Þegar breska ríkisstjórnin setti á okkur hryðjuverkalögin voru þeir einu sem voru tilbúnir að tala máli okkar í breska þinginu einmitt þingmenn svæða eins og í Hull og Grimsby því að þeir vissu hve miklir hagsmunir lágu þarna undir.

Ég vil líka benda á að íslenskur sjávarútvegur er mjög alþjóðleg atvinnugrein og Íslendingar eiga fyrirtæki í Bretlandi, Frakklandi og Þýskalandi þar sem verið er að vinna áfram úr því hráefni sem flutt er út. Hins vegar hef ég talað fyrir því utan þings og innan hvort ekki sé eðlilegt að íslenskur fiskur sem veiddur er hér sé allur boðinn upp á íslenskum mörkuðum. Íslensk og erlend fyrirtæki ættu að hafa tækifæri til að bjóða í fiskinn þannig að það sé alveg á hreinu að fiskinum væri landað hér og hann vigtaður. Þá mundu þeir sem byðu hæsta verðið borga Íslendingum fyrir fiskinn og síðan væri hann fluttur út. Með því værum við ekki fyrst og fremst að styrkja starfsmenn erlendra fiskmarkaða heldur styddum við við íslenska fiskmarkaðinn.

Í nefndaráliti 1. minni hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar frá hv. þm. Grétari Mar Jónssyni segir:

„... ákveðið lágmarksverð útgerðar megi ekki vera hærra yfir mánaðartímabil en nemur 15% mun á útgefnu lágmarksverði útgerðar og því brúttóverði sem fékkst fyrir fiskinn á erlendum uppboðsmarkaði ...“

Ég vil einnig benda á að ef þingið telur, eins og hv. þm. Helgi Hjörvar benti á, að það komi nægilega skýrt fram í greinargerðinni með frumvarpinu hver vilji þingsins er, að sem mestur fiskur skuli unninn hérna innan lands, sé tekið mjög skýrt fram í reglugerð sem ráðherra setur m.a. um uppboðsskilmála og framkvæmd uppboðs. Það þarf líka að vera mjög skýrt að Fiskistofa taki saman þessar upplýsingar og skoði þau tilvik þar sem tilboð sem dekka lágmarksverð, eða eru hærri en verða ekki tekin af viðkomandi útflytjanda, séu borin saman við það verð sem viðkomandi fær á fiskmarkaðnum erlendis.

Hæstv. sjávarútvegsráðherra á að geta skoðað þær upplýsingar og við alþingismenn sjáum hvort raunverulega er verið að framfylgja vilja þingsins sem kemur svo skýrt fram í 1. gr. laganna. Það hlýtur nefnilega að vera markmið okkar með þessum lögum að tryggja jafnræði og samkeppni á milli hagsmuna útgerðarinnar, sjávarbyggðanna sjálfra og að sjálfsögðu samfélagsins í heild.