136. löggjafarþing — 55. fundur,  12. des. 2008.

umgengni um nytjastofna sjávar.

120. mál
[14:33]
Horfa

Karl V. Matthíasson (Sf) (andsvar):

Ég er mjög bara sammála hv. þm. Atla Gíslasyni að við verðum að gera allt sem við getum til þess að auka atvinnu og styrkja íslenskt atvinnulíf núna því að margir missa náttúrlega vinnuna. Ég veit nú ekki hvort við fengjum svona margt fólk einn, tveir og þrír í fiskvinnsluna þó að margir kunni að vinna fisk í dag því að það er verið að tala um nokkur þúsund manns ef ég skil rétt það sem er um rætt.

Svo er náttúrlega annað í þessu máli, að þessi tillaga hv. þingmanns — reyndar reifaði ég þessi mál líka í nefndinni sjálfur eins og þingmaðurinn sjálfur getur vitnað um — að það væri náttúrlega best að allur þessi fiskur sem við erum að tala um kæmi bara beint inn til landsins og færi bara á markað á Íslandi. En það var í umræðunni á milli 2. og 3. umr. og mér skilst að það sé nú í raun ekki mjög algengt að menn séu með mikla umræðu um mál á milli 2. og 3. umr. og kom tillagan nokkuð seint fram.

Ég lýsi bara yfir þeirri skoðun minni að ég er alveg heils hugar tilbúinn í langar viðræður og pælingar um það hvað við getum gert til að auka atvinnu á Íslandi bæði á þessum sviðum sem og öðrum sviðum líka, bæði í ferðaþjónustu, sem er mikill gjaldeyrisgefandi atvinnuvegur, og mörgu öðru. (Gripið fram í: Þetta er útúrsnúningur, að tala um ferðamannaiðnað þegar verið er að tala um þorsk.)