136. löggjafarþing — 56. fundur,  12. des. 2008.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

180. mál
[16:38]
Horfa

Ellert B. Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er runnin upp að mörgu leyti söguleg stund þegar fylgt er úr hlaði nefndaráliti sem víkur að frumvarpi til laga um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða. Frumvarpið var lagt fram fyrir nokkrum vikum af hæstv. forseta Alþingi og formönnum stjórnmálaflokkanna sem hér sitja og eiga fulltrúa á Alþingi og hefur nú verið afgreitt af hálfu allsherjarnefndar með fulltingi allra flokka þar sem mælt er með samþykkt frumvarpsins með þeim breytingum sem nefndin hefur lagt til að gerðar verði.

Sú samstaða sem fram kemur hjá formönnum stjórnmálaflokkanna á Alþingi og nú síðast hjá allsherjarnefnd er að mínu mati afar dýrmæt í ljósi þeirrar ólgu og upplausnar sem nú ríkir í landinu.

Hér hafa menn í raun og veru slíðrað sverðin og tekið höndum saman um meðferð og vinnubrögð og sannleiksleit og þar á ekkert að vera undanskilið. Ég fullyrði að íslensk þjóð þarf á þessari rannsókn að halda og ekki síður þeirri samstöðu sem hefur myndast um það hvernig skuli staðið að henni.

Mikil lifandis skelfingar ósköp þarf þjóðin raunar á því að halda að stjórnmálamenn og alþingismenn átti sig á því yfir höfuð á þessum örlagatímum og komi þeim skilaboðum til skila að Íslendingar standa frammi fyrir mestu erfiðleikum seinni tíma. Á slíkum ögurstundum er auðvitað upp á líf og dauða að slá skjaldborg um tilveru okkar og lífsskilyrði. Alþingi og stjórnvöld, hvort sem þau eru til hægri eða vinstri, hvort sem þau eru við stjórnvölinn eða í stjórnarandstöðu verða að taka höndum saman og leggja ágreining sem ég vil kalla minni háttar ágreining til hliðar og mynda víðtæka samstöðu hinna pólitísku afla til þess að varða veginn fram á við.

Þess vegna er samstaða um afgreiðslu þessa frumvarps sem hér liggur fyrir mikið gleðiefni og vinnubrögðin til eftirbreytni. Það er beinlínis skylda okkar og ábyrgð að standa þannig að málum. Við erum öll stödd í sama litla björgunarbátnum sem núna hoppar og skekst um í hafrótinu.

Virðulegi forseti. Þegar kemur að rannsókn á orsökum og afleiðingum bankakreppunnar þá er auðvitað um risavaxið verkefni að ræða og það verður að fara fram víðtæk rannsókn þar sem engum verður hlíft. Það þarf allt að vera uppi á borðinu og þá er ekki aðeins átt við fjármálamarkaðinn einan og sér og bankana heldur hvers konar viðskiptastarfsemi, siðfræðina, pólitíkina ef því er að skipta, fjölmiðlana, embættisfærslur, ráðherraábyrgð o.s.frv. Á þessu öllu er tekið í frumvarpinu.

Það var tvennt sem tók mestan tíma hv. allsherjarnefndar við yfirferð frumvarpsins. Annars vegar var um að ræða hvernig staðið skyldi að skipan rannsóknarnefndarinnar og svo hins vegar um upplýsingaskyldu eða þagnarskyldu. Að því er varðar skipan rannsóknarnefndarinnar þá bárust okkur í nefndinni ýmsar ábendingar og athugasemdir, bæði munnlegar og skriflegar. Það sem vó þyngst var að margir vildu að háskólasamfélagið kæmi í ríkari mæli að forustu í þessu verkefni. En niðurstaðan var sú að við héldum okkur í meginatriðum við þá tillögu sem formenn stjórnmálaflokkanna og hæstv. forseti Alþingis lagði upp með, þ.e. að formaður rannsóknarnefndarinnar skyldi koma úr Hæstarétti og við gerðum þá einu breytingu að í staðinn fyrir að rétturinn tilnefndi þann mann sjálfur þá mundi Alþingi eða forsætisnefnd Alþingis tilnefna eða leggja til hver mundi taka við þeirri formennsku. Þetta varð niðurstaðan.

Að því er varðar upplýsinga- og þagnarskylduna þá var það mál vandmeðfarið því þarna er annars vegar um þá hugsun að ræða að allt sé uppi á borðinu og öllum sé skylt að veita upplýsingar og svo hins vegar að það má auðvitað ekki ganga á mannréttindi og friðhelgi einkalífsins. Ég held að hv. allsherjarnefnd hafi komist að skynsamlegri málamiðlunarniðurstöðu og að minnsta kosti vonumst við til að það standist bæði mannréttindi og stjórnarskrá annars vegar en komi samt ekki í veg fyrir að nefndin geti aflað þeirra upplýsinga sem nauðsynlegar eru við meðferð þessa stóra máls.

Það getur verið að margt sem kveðið er á um í frumvarpinu orki tvímælis, of eða van, en viðleitnin er tvímælalaust sú að Alþingi Íslendinga leggur eindregið til og vill standa að löggjöf þar sem sannleikurinn er leiddur í ljós ef á annað borð er hægt leiða einhvern sannleika í ljós á þessum vettvangi.

Þarna er reynt að gæta sanngirni og meðalhófs í báðar áttir en skýlaus undiralda og krafa um að málið sé rannsakað til hlítar, bæði aftur á bak og áfram í tíma og efnismeðferð.

Frú forseti. Sem fulltrúi Samfylkingarinnar í allsherjarnefnd vil ég lýsa yfir eindregnum stuðningi flokks míns við þetta mál og þakka um leið stjórnarandstöðunni fyrir góða samvinnu í nefndarstarfinu sem hefur verið mikið og ítarlegt og síðast en ekki síst þakka ég formanni nefndarinnar fyrir góða leiðsögn.