136. löggjafarþing — 56. fundur,  12. des. 2008.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

180. mál
[16:46]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér annað tvíburafrumvarpanna svokölluðu, það fyrra hefur verið afgreitt, en það gekk út á að stofna embætti sérstaks saksóknara sem fer með refsiþátt bankahrunsins. Við göngum nú í 2. umr. frá hinum tvíburanum, þ.e. rannsóknarnefnd um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna og tengdra atburða.

Þetta er nokkuð merkilegt mál og ekki oft sem þingið setur upp rannsóknarnefndir af þessu tagi og reyndar frekar óvenjulegt. Það hefur verið gert nokkrum sinnum áður, síðast var það Breiðavíkurnefndin og nú er það bankahrunsnefndin, þannig að talsverð nýmæli eru að við setjum upp svona nefnd þó að slíkt hafi tíðkast mun oftar í nágrannaríkjum okkar.

Frumvarpið er að mörgu leyti flókið og ýmis álitamál sem komu upp og vinna þurfti málið hratt. Vinnuhraðinn hefur verið gagnrýndur úti í samfélaginu en ég tel að málsmeðferð allsherjarnefndar hafi verið eðlileg, við höfum haldið fjölmarga fundi og fengið gesti og umsagnir þannig að ég tel að málið sé fullburða og hægt að fara í 2. umr. og greiða atkvæði um breytingartillögurnar. Ég tel að nefndin hafi unnið eðlilega og vel hafi verið haldið á málum.

Varðandi einstök atriði vil ég benda á að rannsóknin getur beinst að ýmsum aðilum, aðgerðum ríkisstjórnar eða einstakra ráðherra, stjórnendum og eigendum fjármálafyrirtækja og stjórnendum stofnana. Ljóst er varðandi ráðherrana — og við tökum sérstaklega á því í kafla um ráðherraábyrgð — að ef rannsóknarnefndin kemst að því að ráðherrar hafi gert mistök eða sýnt af sér vanrækslu í starfi skuli nefndin gera grein fyrir því í skýrslu til Alþingis og síðan hefur Alþingi það hlutverk að meta hvort tilefni sé til að ráðherra sæti ábyrgð. Ef Alþingi vill draga viðkomandi ráðherra til ábyrgðar mundi slíkt mál falla undir lög um ráðherraábyrgð og landsdóm. Skýrt er kveðið á um þetta frá nefndinni en það var ekki jafnskýrt í frumvarpinu og það kom fram fyrst og ég fagna að tekið verði sérstaklega á þætti bæði fyrrverandi og núverandi ráðherra þannig að þeir geti þá komið sínum sjónarmiðum á framfæri við nefndina.

Líka eru nokkur nýmæli að við hlið nefndarinnar starfar annar hópur eða vinnunefnd, sem á að skoða starfshætti og siðferði á fjármálamarkaði. Reyndar víkkuðum við það út í allsherjarnefnd og bættum við „í viðskiptalífi“, því okkur fannst fullþröngt að skoða bara fjármálamarkaðinn. Athyglisvert verður fyrir okkur að fylgjast með því hvernig nefndin mun vinna málið, þ.e. vinnuhópurinn sem mun skoða siðferðið. Alltaf er erfitt að skoða siðferði en ég tel að eðlilegt sé að gera það í þessu tilviki því þegar bankahrunið er skoðað í heildina efast maður um að siðferðið hafi verið í lagi. Því verður spennandi að sjá hvað kemur út úr rannsókninni.

Við kveðum skýrt á um að samkvæmt frumvarpinu og breytingartillögunum fer nefndin ekki með rannsókn á refsiverðum brotum þannig að ef rannsóknarnefndin kemst að því í störfum sínum að líkur séu á því að sá er hún yfirheyrir eða tekur til skoðunar hafi framkvæmt eitthvað refsivert þá ber henni að tilkynna ríkissaksóknara það, sem tekur svo ákvörðun um hvort rannsaka beri málið og getur þá komið því til sérstaks saksóknara.

Varðandi gögnin sem munu verða til við vinnu nefndarinnar er ljóst að mjög margir verða yfirheyrðir og til verða hljóðupptökur af þeim yfirheyrslum og nefndin hefur líka heimildir til að afla gagna þannig að talsvert af gögnum mun safnast upp. Við fórum sérstaklega yfir það af því að Persónuvernd gerði athugasemdir við hvað yrði svo um gögnin þegar rannsókn lýkur og málið er búið. Þjóðskjalasafnið mun varðveita gögnin og um aðgang að gögnum um svona viðkvæm málefni er farið eftir ákveðnum lögum, upplýsingalögum, og takmarkanir verða á gögnunum. Ef gögnin eru mjög viðkvæm þarf að meta það og liðið geta 80 ár þar til má skoða þau. Væntanlega verður eitthvað af þessum gögnum — eða ég gef mér það — flokkað sem svo viðkvæm gögn að þetta ákvæði gæti átt við. En vonandi verða flest gögnin þannig að það megi skoða þau strax eða eftir færri ár en þar kveður á um.

Við segjum í niðurlagi nefndarálitsins að mjög mikilvægt sé að fjárskortur standi ekki í vegi fyrir því að rannsóknarnefndin geti sinnt hlutverki sínu og skilað niðurstöðum bæði fljótt og vel. Í þessu sambandi vil ég sérstaklega taka fram að nýlega hélt Alþingi ráðstefnu um eftirlit með þjóðþingum og þar kom fram hjá þeim sem mjög vel þekkja til þeirra mála, t.d. í Noregi, að miklu máli skipti fyrir svona nefndir að hafa öflugt starfsfólk. Ekki skipti öllu að nefndin sé fjölmenn — hún er bara þriggja manna í þessu tilviki — heldur hvort hún hefði þrjá eða tólf starfsmenn. Nefndin gefur því skýr skilaboð um að þessi nýja rannsóknarnefnd sem á að setja á laggirnar á að geta ráðið sér starfsfólk til að fara hratt í rannsóknina og vinna hana á ítarlegan hátt. Þetta mun því kosta peninga, en þeim verður trúlega mjög vel varið þannig að ég er tilbúin til að skrifa undir að ekki megi hemja nefndina í störfum sínum með því að veita of litlu fé til hennar.

Virðulegur forseti, aðalástæðan fyrir því að ég fer hér í nefndarálitið, þrátt fyrir að hv. þm. Birgir Ármannsson, formaður nefndarinnar, hafi gert mjög vel grein fyrir því, er að ég vil undirstrika að auðvitað er mjög óheppilegt að í hvert skipti sem eitthvað svona kemur upp, sem er sem betur fer sjaldan, séum við að skraddarasauma löggjöf í kringum rannsókn á viðkomandi máli. Í þjóðþingum í grenndinni eru til almenn lagaákvæði, þ.e. ef eitthvað svona kemur upp fer kerfið sjálfkrafa í gang og ákveðin rannsóknarnefnd sem lýtur ákveðnum lögum fer í málið. Í þau fáu skipti sem svona mál koma upp hér, sérsmíðum við lög og rannsóknarnefndir og það er óheppilegt. Ég tel því að hið allra fyrsta þurfi að koma á almennri löggjöf þannig að þegar svona áföll koma upp, hvernig sem þau nú eru til komin, fari rannsókn í gang eftir almennum lögum.