136. löggjafarþing — 56. fundur,  12. des. 2008.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

180. mál
[17:06]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Hér ræðum við frumvarp sem á sér mikla sérstöðu. Í áliti allsherjarnefndar kemur fram að sérstaða þess sé að það sé lagt fram af forseta Alþingis og formönnum allra flokka og sé afrakstur samkomulags. Sérstaðan er auðvitað allt önnur og meiri, við skulum hafa það í huga. Við erum að takast á við mesta áfall og mestu erfiðleika lýðveldissögunnar. Aðstæður eru afar sérstakar og það skyldu menn hafa í huga, utan þings sem innan, þegar þeir leggja mat sitt á og gagnrýna þetta frumvarp. Hér er undir hrun bankanna og mikið áfall fyrir íslenskt efnahagslíf. Í rannsókninni verður lagður dómur á efnahags- og peningamálastefnu, pólitíska stefnu, markaðshyggju o.s.frv.

Menn skyldu líka hafa í huga að rannsóknarnefndin er ekki dómstóll og ekki verður byggt á þessum niðurstöðum fyrir dómi, hvort sem er í einka- eða sakamálum. Þetta er eftirlitsnefnd Alþingis, rannsóknarnefnd Alþingis sem skipar sér algjöra sérstöðu og er fagnaðarefni.

Niðurstaða nefndarinnar mun byggja á yfirsýn bestu manna og skynsamlegu mati rannsóknarnefndarinnar — þriggja manna rannsóknarnefndar sem leitast er við að sé skipuð færustu mönnum sem við eigum völ á — og ekki síður yfirsýn og skynsamlegu mati þeirra vinnuhópa sem að þessu verki koma og þeirrar nefndar sem ég kalla siðferðisnefnd. Fyrst og fremst lýtur þessi rannsókn að hugsanlegri pólitískri, siðferðislegri og starfslegri ábyrgð. Það er málið.

Að mínu mati hefur verið vandað afar vel til verka við þetta frumvarp og það hefur líka fengið góða og faglega meðferð í allsherjarnefnd þrátt fyrir stuttan málsmeðferðartíma. Ég hygg að það hafi verið hugað að öllum veigamestu atriðum þessa frumvarps og náðst hefur samstaða um mjög gagnlegar breytingar sem hv. formaður allsherjarnefndar, Birgir Ármannsson, hefur gert skýra grein fyrir. Ég vil nota tækifærið og þakka honum og meðnefndarmönnum mínum í allsherjarnefnd fyrir gefandi og gott samstarf.

Ég hefði reyndar viljað sjá fleiri breytingar sem ég tel að yrðu til bóta en langflestar af þeim athugasemdum sem ég hafði fram að færa voru teknar til greina. Einnig hefur verið tekið á þeim ábendingum Lögmannafélagsins sem veigamestar eru þannig að atriðin sem eftir standa gefa alls ekki ástæðu til ágreinings.

Það vekur ánægju mína að skipuð sé sérstök nefnd sem leitar skýringa í starfsháttum og siðferði. Í meðferð allsherjarnefndar hefur ákvæðið tekið breytingum þar sem áður stóð „siðferði á fjármálamarkaði“. Orðið „fjármálamarkaði“ hefur verið fellt út og starfssvið siðferðisnefndarinnar þar með víkkað út þannig að allt er undir, viðskipti, stjórnmál og annað sem máli kann að skipta við þessa rannsókn.

Allsherjarnefnd hefur líka skoðað vandlega hvort einhver ákvæði frumvarpsins kynnu að stangast á við stjórnarskrána. Það er einróma mat hennar að svo sé ekki enda gengur stjórnarskráin að sjálfsögðu ávallt framar almennum lögum og tryggir, eins og henni er ætlað að gera, réttindi einstaklinga. Mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar eru sett til verndar einstaklingum, ég legg áherslu á að þetta eru einstaklingsréttindi en ekki fyrirtækjaréttindi.

Svo hefur líka verið búið um hnútana með breytingum undir meðferð málsins að þagnarskyldan hefur verið tryggð að því marki sem hún er varin og að því marki að hún þurfi ekki að víkja fyrir veigameiri almannahagsmunum. Meginreglan er sú að bankaleyndin víkur fyrir þeim brýnu hagsmunum sem rannsóknarnefndinni er ætlað að sinna. Hér fer fram allsherjarkerfisskoðun.

Ég vil líka minnast á aðra gagnlega breytingu. Tekið hefur verið út það sem ég nefni skipunarábyrgð Hæstaréttar og þar með er að mínu mati skapaður tryggari og traustari grundvöllur undir starf formanns nefndarinnar. Tímalengdin er látin liggja milli hluta og því hefur verið lýst hér á Alþingi við 1. umr. að nefndin væri ekki háð takmörkunum í tíma. Hún getur þess vegna leitað 15, 16, 17 ár aftur í tímann, telji nefndin ástæðu til þess.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gerði menningu að umtalsefni í ræðu sinni og ég vil í lokaorðum mínum árétta það, það er menning Alþingis og mikilvægi Alþingis í hinu þrískipta ríkisvaldi. Margir hafa haft það á orði að völd Alþingis og gildi í hinu þrískipta ríkisvaldi hafi dvínað á síðustu árum eða áratugum. Mín skoðun er sú að þetta frumkvæði Alþingis í málinu sé afar mikilvægt og styrki Alþingi verulega, ekki eingöngu út frá þessu máli sem ég er að tala um núna heldur fullyrði ég að reynsla af störfum rannsóknarnefndarinnar muni verða leiðarljós að lagasetningu um eftirlitsnefndir. Slík vinna er í gangi og ég hygg að niðurstaðan og starfshættir og starf nefndarinnar í heild sinni muni veita mjög gagnlega vísbendingu um hvernig lagasetning um eftirlitsnefndir á vegum Alþingis eigi að vera orðuð og sett fram. Það er mín einlæga von, og nokkurn veginn vissa, að með því að setja almenn lög um eftirlitsnefndir verði Alþingi mun betur í stakk búið til að sinna sinni brýnu eftirlitsskyldu sem hefur heldur orðið út undan á síðari árum. Ég hygg að það sé vilji alls Alþingis og ég veit að vilji hv. þm. Sturlu Böðvarssonar stendur til þess sem og stjórnar Alþingis. Það er mjög mikilvægt að Alþingi geti gripið inn í veigamikil mál og sett á stofn eftirlitsnefndir, ekki refsiréttarlegar nefndir eða neitt slíkt og ekki til að setja upp dómstólameðferð heldur til að leita sannleikans í málum sem skipta þjóðina miklu máli. Ef það verður niðurstaða þessa máls og rannsóknarinnar verður mikið gæfuspor stigið á Alþingi í dag.