136. löggjafarþing — 56. fundur,  12. des. 2008.

stjórn fiskveiða.

114. mál
[17:43]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég vil árétta að það frumvarp sem hér er verið að afgreiða í 3. umr. heimilar að geyma aflaheimildir á milli ára. Það er einhliða heimild til útgerðarinnar til að geyma aflaheimildir á milli ára, allt að 33% þeirra. Við skulum segja að þetta væri nýtt til fulls á 140 þús. tonna þorskkvóta en þá er það í valdi útgerðarinnar að geyma 1/3 af því til næsta árs. Réttur fiskvinnslufólks, réttur byggðarlaganna, réttur íbúanna á svæðunum, til að fá að halda atvinnu sinni og að fiskurinn komi með eðlilegum hætti að landi, er gjörsamlega fyrir borð borinn.

Mér er sagt að um leið og vitnaðist að frumvarpið væri að koma fram hafi kaupverðið á leigukvóta hækkað, því að frumvarpið gaf heimild til þess að þeir sem ekki höfðu nýtt aflaheimildirnar innan ársins gátu frestað því til næsta árs. Þetta sýnir hversu fáránlegt fiskveiðistjórnarkerfið er, þetta kvótakerfi er, að útgerðarmenn geti þannig haft atvinnustigið í byggðarlögunum í hendi sér.

Ég geri mér grein fyrir því að langflestir eru heiðarlegir í þeim efnum og ég er ekki að brigsla þeim um það almennt, en valdið er þar. Ef t.d. allir í einu byggðgarlagi tækju sig saman og geymdu kvótann til næsta árs, hvað þá? Ef kvótinn væri í eigu ríkisins og úthlutað væri með þeim hætti sem þörf er á og eðlilegt er til þess að halda uppi og reka eðlilegar og góðar veiðar og vinnslu þyrfti ekkert að vera að geyma svona á milli ára og vera að hleypa leigukvótaverði upp.

Frú forseti. Ég vildi árétta það að þetta er annað frumvarpið sem flutt er í dag sem fyllir ekki upp í væntingar byggðanna, hitt var um heimildina til þess að flytja út óunninn fisk. Væri nú ekki nær að rétturinn til þess að vinna fiskinn væri bundinn við byggðarlögin á Vestfjörðum, byggðarlögin á Norðurlandi, byggðarlögin á suðvesturhorninu, á suðausturhorninu og allt í kringum landið í staðinn fyrir heimild til þess að flytja óunninn fisk út í gámum. Og nú kemur hér til viðbótar frumvarp sem heimilar að geyma enn stærri hlut af fiskveiðiheimildunum milli ára. Hafrannsóknastofnun hefur varað við því og sagt að það sé í engum takti við skynsamlega nýtingu og umgengni við fiskstofnana, því að það byggist jú á jafnri nýtingu og jöfnum veiðum í takt við það sem stofnarnir eru taldir bera. Er eitthvað betra að fara að veiða með tvöföldu álagi á næsta ári? Nei.

Þeir vara við þessu, frú forseti, þetta gengur þvert gegn hagsmunum og sjálfsákvörðunarrétti byggðanna í að nýta og fara með auðlindir sínar. Ég árétta það sjónarmið sem fram kom hjá hv. þingmönnum Atla Gíslasyni, Grétari Mar Jónssyni og Guðjóni Arnari Kristjánssyni að frumvarpið gengur gegn hagsmunum byggðanna, gengur gegn hagsmunum atvinnulífsins í landinu og brýtur í bága við eðlilega umgengni um auðlindina.