136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

Sjúkratryggingastofnun.

[10:36]
Horfa

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Ég sat auðvitað ekki þann fund sem hv. þingmaður vitnar til en ég hygg að hann geri fullmikið úr ágreiningi milli stofnana og aðila innan Stjórnarráðsins um þetta mál. Alþingi samþykkti lög um að stofna sérstaka sjúkratryggingastofnun. Í því felst að ákveðin verkefni á vegum Tryggingastofnunar ríkisins færðust þar á milli. Unnið hefur verið að því á undanförnum vikum og mánuðum en ljóst er að þegar um er að ræða gamalgróna stofnun með fjölda manns í vinnu, eins og Tryggingastofnun ríkisins, þá er það ekki endilega einfalt verk. Ég veit ekki betur en þeir sem þarna koma að máli beggja vegna frá, úr báðum ráðuneytunum, frá Tryggingastofnun ríkisins og frá Sjúkratryggingastofnun, séu að reyna að leysa þetta mál með sem farsælustum hætti og í bróðerni og sátt. Það hefur tekið tíma en það er auðvitað það sem þarf að gera. Þannig þarf að leysa málið. Þær kostnaðartölur sem hv. þingmaður nefndi eru út úr öllu korti og ég hef ekki trú á því að þær geti staðist.