136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

Sjúkratryggingastofnun.

[10:38]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Þeir sem sátu umræddan fund urðu lítið varir við bróðerni og sátt. Við urðum hins vegar vitni að glundroða, að ósætti og stjórnleysi innan Stjórnarráðsins. Hæstv. forsætisráðherra finnst of mikið gert úr þessu máli. Það þykir starfsmönnum Tryggingastofnunar ríkisins ekki og ég get lofað hæstv. forsætisráðherra því líka að skattborgaranum finnst ekki of mikið gert úr því þegar að ósekju eru settar á hans herðar 250 millj. kr. árlega, fjórðungur úr milljarði. Eða er kannski of mikið gert úr því líka á forsíðu Morgunblaðsins þegar boðuð eru aukin kostnaðargjöld og að sjúklingarnir verði rukkaðir þegar þeir ganga inn á Landspítala Íslands? Finnst hæstv. forsætisráðherra of mikið gert úr því í Morgunblaðinu? Ég lofa honum því að við fjárlagaumræðuna í dag og á næstu dögum verður ríkisstjórnin mér liggur við að segja látin svara til saka um þau áform sem uppi eru í heilbrigðiskerfi Íslendinga.