136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

Niðurfelling skulda sjávarútvegsfyrirtækja.

[10:44]
Horfa

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. sjávarútvegsráðherra fyrir svörin þó að þau hafi verið heldur rýr í roðinu. Mér finnst satt að segja með ólíkindum að sjávarútvegsráðuneytið hafi komið með jafnlitlum eða rýrum hætti að þessu máli og raun ber vitni eða eins og hæstv. sjávarútvegsráðherra vildi láta í veðri vaka. Það er ekki í samræmi við það sem skilja mátti af því sem framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna, Friðrik Arngrímsson, hafði um þessi mál að segja. Þar var verið að tala um samninga 33 sjávarútvegsfyrirtækja við Nýja Landsbankann, þar var verið að tala um hugsanlega niðurfellingu þannig að þar er um verulegar breytingar að ræða. Eftir því sem ég best get skilið er um að ræða af hálfu stjórnvalda að festa enn betur í sessi gjafakvótakerfið þannig að upp á nýtt á að gefa vitlaust með nýju kerfi þar sem skuldirnar eru strikaðar út að stórum hluta og kvótinn gefinn aftur.