136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

niðurfelling skulda sjávarútvegsfyrirtækja.

[10:45]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Mér finnst hv. þingmaður svolítið snúa þessum hlutum á hvolf. Ef sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið væri beinn aðili að þessum samningum hefði ég sett mikið spurningarmerki við það. (GAK: Fólkið í landinu.) Hér er um að ræða viðskiptalegan gjörning á milli tveggja aðila, þ.e. þessara nýju og gömlu banka, (Gripið fram í.) og auðvitað með aðkomu þeirra fyrirtækja sem um er að ræða. Að mínu mati væri óeðlilegt ef sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið blandaði sér með beinum hætti inn í þessa samninga.

Auðvitað er mér kunnugt um það að samningaviðræður hafa staðið yfir. Það væru skárri ósköpin ef ég reyndi ekki að fylgjast með þessu en það er ekki þannig að ríkisvaldið eða einstök fagráðuneyti hafi beina aðkomu að svona samningagerðum. Það hefur líka komið fram að ef samkomulag næst um það er ætlunin að það verði gert á viðskiptalegum forsendum. Það eru ekki bara sjávarútvegsfyrirtæki sem eiga í svona samskiptum, það eru líka lífeyrissjóðir og ýmsir aðrir sem hafa gríðarlega mikla hagsmuni af því (Forseti hringir.) að hægt sé að ljúka einhverri samningagerð um þessa framvirku gjaldeyrissamninga.