136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

neyðarráð embættismanna og sameining Seðlabanka og Fjármálaeftirlits.

[10:53]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ríkisstjórnin hefur legið undir miklu ámæli fyrir það að hafa að mörgu leyti brugðist rangt við aðsteðjandi efnahagshruni og er það svo sannarlega ekki að ósekju. Nú kom hæstv. iðnaðarráðherra fram á völlinn á dögunum í þætti á Stöð 2 sem heitir Mannamál og lýsti því yfir að Samfylkingin hefði lagst gegn því sérstaklega að Davíð Oddsson, formaður stjórnar Seðlabankans, yrði yfir svokölluðu neyðarráði embættismanna sem ætti að takast á við aðsteðjandi vandamál. Það er trúlega tillaga sem hæstv. forsætisráðherra lagði sjálfur fram á ríkisstjórnarfundi en Samfylkingin lagðist gegn.

Nú spyr ég hæstv. forsætisráðherra hvort það geti virkilega verið þannig á þessum síðustu og verstu tímum að ekkert neyðarráð embættismanna sé starfandi. Við hljótum að gefa okkur að það sé starfandi, en hver er þá yfir því neyðarráði? Þetta vekur miklar grunsemdir. Reyndar kom fram hjá Samfylkingunni á dögunum, lak út af ríkisstjórnarfundi, að formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands væri ekki á ábyrgð þess ágæta flokks, en við hljótum að spyrja okkur hvort þeim ágæta manni sé virkilega sætt í embætti ef ríkisstjórnin treystir honum ekki til þeirra verka og hann nýtur ekki trausts til þess að vera yfir slíku neyðarráði.

Ég spyr líka hæstv. ráðherra hvað líði fyrirhuguðum aðgerðum ríkisstjórnarinnar um sameiningu Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands. Eins og greina má af ummælum ýmissa ráðherra Samfylkingarinnar og forsvarsmanna Samfylkingarinnar er það gert til þess m.a. að breyta um yfirstjórn þessara stofnana og ég spyr hæstv. forsætisráðherra hvort vænta megi slíkra breytinga fyrir áramót.