136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

neyðarráð embættismanna og sameining Seðlabanka og Fjármálaeftirlits.

[10:56]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Þessi liður, fyrirspurnir þingmanna til ráðherra, hélt ég að væri til þess gerður að fá svör. Ég spurði hver væri formaður þessa neyðarráðs. Ef ríkisstjórnin og Samfylkingin treysta ekki formanni Seðlabanka Íslands, hver er þá formaður í þessu neyðarráði, hæstv. forseti?

Ég spyr líka hæstv. forsætisráðherra í ljósi þess ágæta fundar sem við fulltrúar í viðskiptanefnd áttum með formanni bankaráðs Seðlabankans þar sem hann lýsti því yfir að það væri ekki hann sem tæki ákvörðun um það hvaða ráðherrar mættu á fund fyrir hönd ríkisstjórnarinnar með bankastjórn Seðlabanka Íslands: Hvers vegna boðaði hæstv. forsætisráðherra ekki ráðherra bankamála á fjöldamarga samráðsfundi sem hann átti með yfirstjórn Seðlabanka Íslands? Við hljótum að spyrja að þessu vegna þess að umræddur ráðherra hafur sagt að hann hafi ekki setið fjöldamarga fundi og ekki haft hugmynd um (Forseti hringir.) hvað væri að gerast á þessum fundum. Við hljótum því að spyrja höfuð ríkisstjórnar Íslands hvers vegna hann (Forseti hringir.) taki ekki slíka meðreiðarsveina með á þá fundi.