136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

5. fsp.

[10:59]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Hæstv. forseti. Í fréttum í morgun bárust þau válegu tíðindi að Rio Tinto Alcan væri hætt við að stækka álverið í Straumsvík og Alcan hefði slegið á frest álveri á Bakka við Húsavík. Í svari við fyrirspurn minni til hæstv. iðnaðarráðherra Össurar Skarphéðinssonar þann 25. nóvember sl. útlistaði ráðherra aðgerðaáætlun iðnaðarráðuneytisins gegn atvinnuleysi. Þar var gert ráð fyrir hundruðum starfa við endurnýjun og stækkun álversins í Straumsvík, uppbyggingu álvers í Helguvík og uppbyggingu stóriðju á Norðurlandi. Öll þessi verkefni eru nú í uppnámi. Því er ljóst að áætlun iðnaðarráðuneytisins um aðgerðir gegn atvinnuleysi er í molum.

Vissulega á ástandið á fjármálamörkuðum og tímabundin lækkun álverðs þátt í þessum ákvörðunum en hörð afstaða hæstv. umhverfisráðherra gegn uppbyggingu í iðnaði, þá sérstaklega í stóriðju, hefur einnig haft mikil áhrif, þ.e. þegar hún var ekki önnum kafin við að eltast við ísbirni. Afstaða umhverfisráðherra kemur einnig niður á öðrum iðnaði. Þannig hætti norska fyrirtækið REC í sumar við áform sín um að reisa sólarkísilverksmiðju í Þorlákshöfn og þar er um að ræða umhverfisvænan orkufrekan iðnað sem hefði orðið mikil lyftistöng fyrir Sveitarfélagið Ölfus.

Þá er ljóst að áætlanir um gagnaver eru í uppnámi því að án samninga við stóriðju á borð við álver geta orkufyrirtækin ekki ráðist í nauðsynlegar virkjanaframkvæmdir. Þannig er ljóst að innanflokksátök Samfylkingarinnar þar sem hæstv. umhverfisráðherra berst hatrammlega gegn áætlun iðnaðarráðherra um atvinnuuppbyggingu með orkufrekum iðnaði eru farin að valda þjóðinni miklum skaða.

Því vil ég spyrja hæstv. umhverfisráðherra eftirfarandi spurninga: Hver er afstaða ráðherrans til uppbyggingar álvers í Helguvík og áforma um stækkun þess? Hyggst ráðherrann áfram beita sér gegn uppbyggingu gagnavera og annarri lítt mengandi orkufrekri starfsemi með því að hindra orkufyrirtækin í að fara í nauðsynlegar virkjanaframkvæmdir? Ætlar ráðherrann áfram að vinna gegn atvinnustefnu hæstv. iðnaðarráðherra og festa þannig í sessi gríðarlegt atvinnuleysi á landinu öllu?