136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

uppbygging orkufrekra fyrirtækja.

[11:03]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Mér finnst einkar athyglisvert að heyra frá hæstv. umhverfisráðherra að ég sé í raun að halda fram ósannindum þegar ég tek bara undir það sem Samtök iðnaðarins, ASÍ og Fjárfestingarstofa, sem er undir iðnaðarráðuneytinu, hafa haldið fram. (Iðnrh.: Aldrei haldið … umhverfisráðherra.) Jú. (Iðnrh.: Aldrei.) Algjörlega. Fulltrúar Fjárfestingarstofu mættu á fund hjá iðnaðarnefnd þar sem þeir komu með athugasemdir þess efnis að umhverfismatið og það ferli sem væri í gangi núna gagnvart orkufrekum iðnaði og virkjunum væri í raun farið að hefta erlenda fjárfestingu, (Gripið fram í.) enda sjáið þið að nánast eina fyrirtækið sem eftir er sem ætlar sér að fara í einhverja uppbyggingu í orkufrekum iðnaði er fyrirtæki sem ætlar sér að sækja fjármagn hér innan lands. Peningarnir koma ekki að utan, heldur fer norskt fyrirtæki ekki til þriðja heims lands heldur til Kanada (Forseti hringir.) af öllum löndum.