136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

uppbygging orkufrekra fyrirtækja.

[11:04]
Horfa

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég heyri að framsóknarmenn eru að verða ákafir í aðdraganda landsfundar. Þeir ættu kannski að velta því fyrir sér í aðdraganda hans hvort þeir ætli að samþykkja þar að segja upp EES-samningnum. Ef þeir ætla að breyta hér grundvelli umhverfislöggjafarinnar þurfa þeir að segja honum upp. Ég geri ráð fyrir að hv. þm. Eygló Harðardóttir geri sér fyllilega grein fyrir því.

Þó að ábyrgð og vald þess umhverfisráðherra sem hér stendur sé mikið — of mikið finnst sumum, of lítið finnst öðrum — er það ósköp einfaldlega þannig að sú sem hér stendur ber ekki ábyrgð á eða olli alþjóðlegri kreppu á fjármálamörkuðum eða annarri þeirri óáran á fjármálamörkuðum sem yfir okkur dynur sem veldur því að fyrirtæki eru að draga saman, hætta við framkvæmdir og annað það sem allir standa frammi fyrir þessa dagana. (Gripið fram í.) Hið sama á þá við um opinberan rekstur og fyrirtæki í rekstri, allir eiga við sömu vandamálin að stríða, (Forseti hringir.) það er gjaldeyriskreppa og það er fjármálakreppa.