136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[11:24]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir þau orð formanns um að nefndarmenn í fjárlaganefnd leggja sig að sjálfsögðu fram um að vinna sem best saman að þeim málum sem fyrir þá eru lögð. Tel ég að allur hópurinn sem þar vinnur leggi sig fram hvað það varðar. Hinu get ég ekki deilt með formanni fjárlaganefndar að það sé skemmtilegt að mæla fyrir einu mesta niðurskurðarfrumvarpi til fjárlaga sem ég hugsa að mælt hafi verið fyrir í sögu íslenska lýðveldisins, bæði er stórfelldur niðurskurður og halli á ríkissjóði og ríkisbúskapnum meiri en nokkru sinni fyrr og ekki verður séð fyrir endann á honum að óbreyttu.

Ég vek líka athygli á því að þegar nefndin fékk tillögur ríkisstjórnarinnar til 2. umr., gjaldahliðina, lá hvorki fyrir frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið né gjalda- og tekjustaða einstakra stofnana og ríkissjóðs. Þess vegna vil ég spyrja hv. formann fjárlaganefndar hvort honum finnist það í raun forsvaranleg vinnubrögð að afgreiða gjaldahlið frumvarpsins að stærstum hluta, bæði á stofnanir og verkefni ríkissjóðs, án þess að við höfum nokkra hugmynd um hver staða þessara stofnana eða ríkissjóðs er (Forseti hringir.) í dag eða í lok þessa árs.