136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[11:31]
Horfa

Magnús Stefánsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að taka undir með hv. þm. Gunnari Svavarssyni, formanni fjárlaganefndar, og þakka fyrir gott samstarf í nefndinni.

En ég kem hér upp til að tala á svipuðum nótum og hv. þm. Jón Bjarnason. Það liggur fyrir að fjárlaganefndin fékk þessar breytingartillögur á fimmtudagsmorgni. Búið var að afgreiða þær út úr nefndinni sólarhring síðar án grundvallarumfjöllunar um tillögurnar. Það liggja ekki fyrir forsendur áætlana, þjóðhagsspá hefur ekki verið endurskoðuð, fjáraukalagafrumvarp hafði ekki komið fram o.s.frv. Minni hlutinn mótmælti því að fjárlaganefndin afgreiddi frumvarpið frá sér á þeim tíma á þeim forsendum að allar þessar mikilvægu grundvallarupplýsingar skorti.

Ég vil því spyrja hv. þm. Gunnar Svavarsson, formann fjárlaganefndar, að því hvort hann sé einlæglega þeirrar skoðunar að það hafi hreinlega verið tækt að afgreiða frumvarpið frá fjárlaganefndinni á þessum tíma miðað við stöðuna.

Ég vil jafnframt spyrja hv. þingmann að því hvort hann líti svo á að ef þessi gögn berast ekki áður en fjárlaganefndin lýkur umfjöllun um málið fyrir 3. umr. hvort yfir höfuð komi til greina að afgreiða fjárlög fyrr en grundvallarforsendur liggja fyrir. Þær gera það ekki í dag.

En ég vil taka það fram, virðulegi forseti, að formaður fjárlaganefndar hefur lagt sig fram um að kalla eftir þeim upplýsingum sem um hefur verið beðið þannig að ég undirstrika að ég er ekki að beina þessu til hans sérstaklega en fyrir liggur að allar grundvallarforsendur vantar. Það er í raun og veru með ólíkindum ef stjórnarmeirihlutinn á Alþingi hugsar sér að afgreiða fjárlög fyrir árið 2009 miðað við að slíkar forsendur liggi ekki fyrir.