136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[11:35]
Horfa

Magnús Stefánsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. En ég vil líka velta því upp við hv. þingmann, formann fjárlaganefndar, að á þeim breytingartillögum sem liggja fyrir er flatur niðurskurður t.d. á velferðarstofnanir og við vitum að margar stofnanir hafa átt í miklum rekstrarvanda.

Við sáum frumvarp til fjáraukalaga bara fyrir klukkutíma síðan og þar kemur fram að gert er ráð fyrir fjárheimildum til nokkurra þessara stofnana til að mæta hluta af þessum vanda.

Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér framhald í rekstri þessara stofnana miðað við að eftir stendur ákveðinn rekstrarhalli og miðað við það að í breytingartillögunum er gert ráð fyrir flötum niðurskurði upp á um það bil 3% á þessar stofnanir? Hvernig sjá meiri hluti fjárlaganefndar og hv. þingmaður fyrir sér að þessar stofnanir verði reknar á næsta ári?